47 - 2010 Ráðherraráðið styður við flutninga á sjó
Ráðherraráðið lýsti yfir stuðningi við áætlun um Bláa beltið svokallaða, Blue Belt, sem framkvæmdastjórnin hefur ýtt úr vör til að styðja flutninga á sjó.
Því er ætlað að lágmarka formsatriði sem þeir sem starfa að flutningum á sjó þurfa að standa í. Þá lagði ráðið áherslu á að nást þyrfti sátt um samdrátt í losun CO2 á vettvangi, IMO; International Maritime Organisation, Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.
Því var beint til framkvæmdastjórnarinnar að hún leggði fram aðgerðaráætlun sem auðveldaði geiranum að draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi sinni. Í henni ætti að taka á atriðum eins og að nýta aðra orkugjafa, rannsóknir og þróun á þáttum sem geta dregið úr losun, umhverfissjónarmið vegna innviða, mögulegum fjármögnunarleiðum o.fl. Þá er framkvæmdastjórninni falið að finna lausnir sem komi í veg fyrir að samkeppnishæfni sjóflutninga versni við að taka upp umhverfisvænni orkugjafa, þ.e. orkugjafa með minna brennisteinsinnihald. IMO hefur nýlega sett takmörk á brennisteinsmengun frá skipasamgöngum og taka þær gildi 2015.
Að síðustu er framkvæmdastjórnin beðin um að leggja fram leiðbeiningar um hvernig tekið verður tillit til umhverfislöggjafar við þróun hafna. Þá vilja ráðherrarnir að lögð verði áhersla á sjóflutninga í stefnunni um samevrópskt flutninganet í Trans-European Transport Network. Einnig að samgöngur á sjó verði samhæfðar við skipgengar vatnaleiðir og járnbrautir.
Þetta má lesa í 4097-hefti Europolitics.