Áætluð framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árinu 2011
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt eftirfarandi tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um áætlaðar úthlutanir framlaga á árinu 2011:
Áætluð útgjaldajöfnunarframlög
Ráðgjafarnefndin leggur til að áætlun um heildarúthlutun útgjaldajöfnunarframlaga á árinu 2011, sbr. 13. gr. nýrrar reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga nemi allt að 4.200 milljónum króna. Til úthlutunar koma nú 4.025 m. kr.
Framlögin verða greidd til sveitarfélaga mánaðarlega, en 10 prósentum er þó haldið eftir af áætluðum framlögum til að mæta því ef ráðstöfunarfé sjóðsins verður minna eða útgjöld meiri en áætlað var. Uppgjör framlaganna fer fram í desember.
Breyting hefur verið gerð á úthlutun framlaga vegna skólaaksturs úr dreifbýli. Framlögin eru nú sjálfstæð eining innan útgjaldajöfnunarframlaga sjóðsins. Um tvenns konar úthlutun framlaga er að ræða:
Til úthlutunar nú koma áætluð framlög að fjárhæð 575 m. kr. er byggjast á upplýsingum frá sveitarfélögum um akstursleiðir úr dreifbýli sveitarfélags, fjölda grunnskólabarna á hverri leið sem eiga heimili lengra en 3 km frá skóla miðað við 1. október síðastliðinn og upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu um fjölda skóladaga á yfirstandandi skólaári.
Hafi að mati sveitarstjórnar verið um íþyngjandi kostnað að ræða á árinu vegna skólaaksturs úr dreifbýli umfram þau framlög sem hér að framan greinir geta sveitarfélög sótt um viðbótarframlag í árslok á grundvelli ítarlegrar greinargerðar. Ráðstöfunarfjármagn Jöfnunarsjóðs til úthlutunar framlaga á grundvelli umsókna nemur allt að 175 m. kr. á árinu.
Ráðherra hefur sett vinnureglur um úthlutun framlagsins samkvæmt tillögum ráðgjafarnefndar sjóðsins að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Áætluð framlög vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti
Ráðgjafarnefndin leggur til að áætlun um heildarúthlutun framlaga vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti á árinu 2011, sbr. reglugerð, nr. 80/2001 með síðari breytingum, nemi 2.637,6 m. kr. Jöfnunarsjóður greiðir sveitarfélögum framlag fyrirfram sem nemur 60% af áætluðu framlagi ársins eða um 1.582,6 m. kr. Greiðslan er innt af hendi með fimm jöfnum greiðslum mánuðina febrúar til júní. Uppgjör framlaganna greiðist með þremur jöfnum greiðslum mánuðina, júlí, ágúst og september. Áætlunin byggir á ráðstöfunarfjármagni sjóðsins, sbr. frumvarp til fjárlaga 2011.
Að tillögu starfshóps um heildarendurskoðun á gildandi laga- og reglugerðarákvæðum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga hefur verið gerð sú breyting á útreikningi framlaganna að nú er tekið mið af álagningarprósentu fasteignaskatts á því ári sem framlögin koma til greiðslu í stað viðmiða frá árinu 2000, sbr. frétt á vef ráðuneytisins 9. nóvember síðastliðinn.
Áætluð framlög vegna sérþarfa fatlaðra nemenda
Ráðgjafarnefndin leggur til að áætlun um úthlutun framlaga vegna sérþarfa fatlaðra nemenda á árinu 2011, sbr. 4. gr. rgl. nr. 351/2002 með síðari breytingu, nemi samtals um 1.434,8 m. kr. Annars vegar er um að ræða áætlað framlag til Reykjavíkurborgar að fjárhæð 700 m. kr. á grundvelli samnings vegna reksturs sérskóla/sérdeilda, sem áður voru rekin af ríkinu, en hins vegar er áætlað framlag að fjárhæð um 734,8 m. kr. vegna sérþarfa fatlaðra nemenda á grunnskólaaldri í öðrum sveitarfélögum en Reykjavíkurborg.
Áætluð framlög vegna nýbúafræðslu
Ráðgjafarnefndin leggur til að áætlun um úthlutun framlaga vegna nýbúafræðslu á árinu 2011, sbr. 5. gr. rgl. nr. 351/2002, nemi samtals um 135,6 m. kr.