Rannsókn á áhrifum starfsendurhæfingar
Starfsendurhæfing dregur úr félagslegri einangrun, eykur sjálfstraust, hvetur fólk til náms og ætla má að með henni megi draga úr fátækt til lengri tíma litið. Þetta eru meðal niðurstaðna úr könnun á áhrifum starfsendurhæfingar sem kynnt var í dag.
Halldór Sigurður Guðmundsson, lektor við félagsráðgjafardeild HÍ, kynnti í dag niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar á áhrifum starfsendurhæfingar á fátækt, félagslega einangrun og virkni þátttakenda. „Heildarniðurstaða rannsóknarinnar er að starfsendurhæfingin leiðir til þess að staða mikils meirihluta þátttakenda batnar, erfiðleikar minnka, færni og aðlögun styrkist, virkni eykst og þá helst í vinnu og námi,“ segir Halldór og bætir við að starfsendurhæfingin hafi áhrif á þætti sem eru hluti fátæktarhugtaksins og því dragi þjálfunin marktækt úr afstæðri (viðmiðunar) fátækt. Því megi ætla að með því að draga úr helstu áhrifavöldum fátæktar, svo sem lítilli menntun og félagslegri einangrun og með því að efla almenna virkni, sé til lengri tíma hægt að draga úr fátæktinni sjálfri.
Rannsóknin var unnin í samstarfi við Starfsendurhæfingu Norðurlands (SN) og styrkt af Virk-starfsendurhæfingasjóði, Háskóla Íslands og Evrópuári gegn fátækt og félagslegri einangrun. „Niðurstöðurnar skýra og auka skilning á áhrifaþáttum og árangri starfsendurhæfingar og geta orðið til endurmats á einstökum þáttum starfsendurhæfingar. Þá munu þær nýtast SN jafnt sem stjórnvöldum og öðrum stofnunum á sviði starfsendurhæfingar hér á landi.“
Telja starfsendurhæfingu skila miklum árangri
„Í rannsókninni var notast við rannsóknaraðferðir sem byggjast á viðtölum og spurningalistum til þess að fá skilning á upplifun þátttakenda og sem nákvæmastar upplýsingar um heildarstöðu þeirra, breytingar og afdrif,“ segir Halldór. Starfsendurhæfing virðist hafa skilað töluverðum árangri ef marka má viðhorf þeirra sem táku þátt í rannsókninni, en 90% þeirra töldu endurhæfinguna hafa skilað sér frekar miklum eða mjög miklum árangri og enginn taldi hana hafa skilað litlum eða engum árangri. Meirihluti þátttakenda taldi einnig að félagsleg einangrun sín hefði minnkað við þátttöku í starfsendurhæfingunni, eða rúm 60%. Tæp 36% töldu félagslega einangrun sína vera svipaða og áður og tæp 4% töldu einangrun sína hafa aukist.
Fræðsla eykur sjálfstraust
„Flestir þátttakendur töldu fræðsluna koma að mestu gangi og aðrir þættir voru heilsueflingin, námskeiðin og sálfræðiaðstoðin. Þá töldu 85% þátttakenda að aukið sjálfstraust væri einn helsti ávinningur endurhæfingarinnar og að hún hefði stuðlað að námi, bættri heilsu, aukinni þátttöku í félagslífi, auknu sjálfstæði og almennt auknum lífsgæðum. Sé litið til stöðu við útskrift kemur í ljós að rösklega helmingur þátttakenda, tæp 54%, munu fara í áframhaldandi nám eða þjálfun. Tæp 20% fara í fullt starf og um 5% í hlutastarf. Um 15% tilgreina „annað“ og þar kemur helst fram að viðkomandi sé í atvinnuleit ásamt því að vera í áframhaldandi námi og þjálfun. Því má segja að staða 94% þátttakenda við útskrift sé sú að annað hvort sé framundan áframhaldandi nám og/eða atvinna.“
Fjöldi rannsakenda komu að verkefninu auk Halldórs og má þar nefna Bryndísi Elfu Valdemarsdóttur,stjórnsýslufræðing, Kristján Má Magnússon , sálfræðing, Atla Hafþórsson, þjóðfélagsfræðing og Guðnýju Björk Eydal, prófessor við félagsráðgjafardeild HÍ. Einnig vann Þóra Ingimundardóttir, nemi í meistaranámi til starfsréttinda í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, með rannsóknarhópnum.