Hoppa yfir valmynd
13. desember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrslit í fjölmiðlasamkeppni Evrópuárs gegn fátækt og félagslegri einangrun

Félags- og tryggingamálaráðherra afhenti fyrir helgi verðlaun í fjölmiðlasamkeppni Evrópuársins 2010 gegn fátækt og félagslegri einangrun á Íslandi. Vinningstillagan hefur verið send í Evrópuhluta keppninnar og verða úrslit hennar kynnar í Brussel 17. desember. 

Fjölmiðlasamkeppni EvrópuársFjölmiðlasamkeppni Evrópuársins 2010 – gegn fáttækt og félagslegri einangrun, var opin öllum blaða- og fréttamönnum sem fjallað höfðu um fátækt og félagslega einangrun á þessu ári. Trausti Hafsteinsson, blaðamaður á DV hlaut fyrstu verðlaun í samkeppninni fyrir grein sem bar yfirskriftina: „Sá enga aðra leið en að svipta sig lífi“ og birtist hún í blaðinu þann 4. desember 2009. Það var mat íslensku dómnefndarinnar að greinin væri vel ígrunduð og kannaði vandamál skuldara af mikilli dýpt. Fanga væri víða leitað og góð mynd gefin af vandasamri stöðu skuldara. Greinin þótti vel skrifuð auk þess að grípa vel athygli lesandans og endurspegla lausn á vandamálinu. Grein Trausta hefur nú verið send í Evrópuhluta keppninnar, en tilkynnt verður um sigurvegara hennar við athöfn í Brussel, 17. desember 2010.

„Fátækt og félagsleg einangrun er vandamál sem við viljum útrýma. Til að finna raunverulegar lausnir þurfum við skilja rætur vandans og að gefa þeim rödd sem kljást við hann, og þar er starf fjölmiðla gríðarlega mikilvægt. Vönduð fjölmiðlun er nauðsynleg fyrir samfélag okkar í heild og því er það sérlega ánægjulegt að veita Trausta þessi verðlaun,“ sagði Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, við afhendingu verðlaunanna. „Evrópuárið 2010 er baráttuár gegn fátækt og félagslegri einangrun, en þótt því sé brátt að ljúka þá heldur vinnan áfram.“ 

László Andor, framkvæmdastjóri Evrópunefndar um atvinnu- og félagsmál tekur í sama streng: „Fjölmiðlafólk gegnir lykilhlutverki í þessari umræðu og það var þess vegna sem við efndum til þessarar keppni fyrir bestu umfjöllunina tengda fátækt og baráttu gegn félagslegri einangrun.“

Í öðru sæti í Íslandshluta blaðamannasamkeppninnar var greinin „Velkomin í fátækt“ eftir Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur og Viktoríu Hermannsdóttur sem birtist í DV og í þriðja sæti var greinin „Kvennasmiðjan var opinberun“ eftir Sigurð Boga Sævarsson á Morgunblaðinu.  

Evrópuárið 2010

Fréttamannasamkeppnin er einn af lykilviðburðum yfirstandandi Evrópuárs og er markmið samkeppninnar að efla umfjöllun um málefni er varða fátækt og félagslega einangrun og auka þannig vitund almennings. Aðrir lykilviðburðir sem efnt hefur verið til á Íslandi er ljósmyndasýning sem nú stendur yfir hjá Samhjálp Í Reykjavík, í samstarfi nema LHÍ og fólks sem upplifað hefur fátækt/félagslega einangrun. Jafnframt hefur verið efnt til fjölda ráðstefna um tiltekin málefni, s.s. fátækt barna, fátækt og félagslega einangrun og hlutverk hjálparstofnana eða þriðja geirans svokallaða.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta