Níutíu ár liðin frá stofnun Veðurstofu Íslands
Veðurstofa Íslands fagnar níutíu ára afmæli á þessu ári og af því tilefni efnir stofnunin til afmælisfundar í dag og veðurspáleiks á heimasíðu stofnunarinnar.
Afmælisfundur
Afmælisfundurinn hófst í morgun og honum lýkur með móttöku sem hefst kl. 16:30. Fyrir hádegi verða loftslagsrannsóknir til umfjöllunar en eftir hádegi verður umfjöllunarefnið eldgosavöktun og eldgosarannsóknir. Hægt er að nálgast dagskrá fundarins á heimasíðu Veðurstofunnar.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ávarpaði fundinn í morgun og sagði meðal annars að það hefði heldur betur reynt á öryggishlutverk Veðurstofunnar á afmælisárinu: ,,Starfsmenn Veðurstofunnar vöktuðu gosið allt frá kvikuhreyfingum í jarðskorpunni til dreifingar fínösku í háloftunum og voru undir gífurlegri pressu að miðla upplýsingum til stofnana og fjölmiðla erlendis fljótt og vel." Umhverfisráðherra sagði Veðurstofuna hafa staðið sig frábærlega í þessum atburðum og í kjölfarið hafi opnast ýmsar dyr að nýjum rannsóknar- og vöktunarverkefnum. Hægt er að lesa ávarpið í heild sinni á heimasíðu umhverfisráðuneytisins.
Veðurspáleikur
Hægt er að spila veðurspáleik á heimasíðu Veðurstofunnar þar sem almenningi gefst kostur á að spá veðrinu í tvo daga fram í tímann. Leikurinn hófst í gær og hægt er að spá í veðrið til og með 17. desember. Sigurvegari fær vegleg verðlaun frá Veðurstofunni en meginmarkmiðið er að allir hafi gaman og gagn af.
Um;Veðurstofu Íslands
Veðurstofa Íslands hefur gegnt því hlutverki að vakta náttúruna, varðveita gögn og miðla þeim. Starfsemin hófst 1. janúar 1920 með stofnun Veðurfræðideildar innan þáverandi Löggildingarstofu. Löggildingarstofan var lögð niður í árslok 1924 og varð Veðurfræðideildin þá sjálfstæð undir heitinu Veðurstofan. Með fyrstu lögum um stofnunina 1926 fékk hún nafnið Veðurstofa Íslands.
Starfsemi Veðurstofunnar stórefldist í kjölfar síðari heimsstyrjaldar er Ísland tók að sér flugleiðsöguþjónustu á Norður-Atlantshafi, þar á meðal veðurþjónustu vegna millilandaflugs, og lögbundin verkefni Veðurstofunnar hafa aukist mjög í tímans rás.
Veðurstofan og Vatnamælingar voru sameinaðar í nýrri stofnun undir nafni Veðurstofu Íslands í ársbyrjun 2009 en kerfisbundnar vatnamælingar hafa farið fram allt frá 1947 ásamt mælingum á jöklabúskap, kortagerð og flóðarannsóknum.
Verkefni Veðurstofunnar taka nú til veðurs, loftslagsbreytinga, jarðskjálfta, eldgosa, ofanflóða, vatnsflóða, jökulhlaupa, hafíss og mengunar. Veðurstofan vinnur að rannsóknum og vaktar og sendir út viðvaranir ef hætta vofir yfir af völdum náttúrunnar.
Veðurstofan starfrækir fjölþætt kerfi veðurstöðva, jarðskjálftamæla, GPS-færslumæla, vatna- og flóðamæla og sinnir eftirliti víða um land. Hún hefur yfir að ráða veðursjá á Miðnesheiði og hefur nýlega fengið tímabundið til afnota öfluga færanlega ratsjá, sem greinir ösku í andrúmslofti. Ratsjáin verður fyrst um sinn staðsett miðja vegu milli Heklu og Mýrdalsjökuls, en verður svo færð eftir þörfum.
Veðurstofan tekur þátt í og er í forystu fyrir alþjóðlegum rannsóknarverkefnum svo sem á sviði loftslagsrannsókna. Hún á í samstarfi við innlenda og erlenda eftirlits- og rannsóknaraðila og er í nánu samstarfi við almannavarnir og almenning í landinu. Á vefsíðum hennar má finna gögn úr umfangsmiklu mælakerfi, sem almenningur og vísindamenn um víða veröld geta gengið að og eru einstæð í heiminum.