Ríkissaksóknara send málefni er varða starfsemi eftirlitssveitar við bandaríska sendiráðið á Íslandi
Dómsmála- og mannréttindaráðherra boðaði til fréttamannafundar í dag, þriðjudaginn 14. desember, vegna könnunar á starfsemi svokallaðrar eftirlitssveitar eða öryggissveitar við bandaríska sendiráðið á Íslandi. Ráðherra fól embætti ríkislögreglustjóra að kanna starfsemi eftirlitssveitarinnar þann 8. nóvember sl. í framhaldi af umfjöllun fjölmiðla í Noregi og Danmörku um að slíkar sveitir hefðu mögulega gerst brotlegar við þarlend lög. Í samráði við utanríkisráðuneytið óskaði ríkislögreglustjóri svara bandaríska sendiráðsins við ítarlegum spurningum er varða starfsemi eftirlitssveitarinnar. Ríkislögreglustjóri skilaði skýrslu sinni 25. nóvember sl. og hefur hún verið birt á hér heimasíðu dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins.
Í skýrslunni kemur fram að svör við spurningum ríkislögreglustjóra voru ófullnægjandi og skilaði könnun ríkislögreglustjóra fyrir vikið ekki niðurstöðu hvað varðar hugsanleg brot gegn íslenskum lögum. Dómsmála- og mannréttindaráðherra tók því ákvörðun um að senda embætti ríkissaksóknara málið til þóknanlegrar meðferðar og er það gert með bréfi dagsettu 14. desember 2010.