Verklok Straumhvarfa, átaks til eflingar þjónustu við geðfatlaða
Nærri 140 manns hafa fengið búsetuúrræði, sérhæfðan stuðning og aðstoð til að stunda vinnu, menntun eða endurhæfingu eða nýta sér aðra þjónustu í tengslum við Straumhvörf, átaks til eflingar þjónustu við geðfatlaða. Verkefnið hófst árið 2006 og er nú formlega lokið.
Verkefnið Straumhvörf hófst árið 2006 þegar þáverandi félagsmálaráðherra Árni Magnússon ýtti úr vör átaki til að efla þjónustu við geðfatlaða. Markmið verkefnisins var að koma hópi geðfatlaðra einstaklinga sem höfðu dvalist á stofnunum út í samfélagið og í sjálfstæða búsetu ellegar búsetu með stuðningi. Til verkefnisins var varið samtals 2.300 m. kr. á árunum 2006 - 2010. Einn milljarður kom af söluandvirði Landsímans, 500 milljónir úr Framkvæmdasjóði fatlaðra og rekstrarfjármagn nam 855 m.kr. Verkefnið tók til 160 einstaklinga víðsvegar á landinu sem flytjast áttu úr stofnanavistun í þjónustu úti í samfélaginu. Markmiðið var að útvega þeim búsetuúrræði ásamt sérhæfðum stuðningi og stoðþjónustu sem laut að atvinnu, menntun, endurhæfingu auk annarrar dagþjónustu. Nú þegar verkefnistíma Straumhvarfa er lokið hefur tekist að veita 130 - 140 einstaklingum á landinu öllu nýja þjónustu í samræmi við markmið Straumhvarfa.
Í ljósi þeirrar staðreyndar að geðfötlun er afturkræf hefur athygli verið vakin á þörfum geðfatlaðra fyrir fjölbreyttari þjónustuúrræði og bætt lífsgæði. Augu manna hafa beinst að sjónarmiðum sem varða meira sjálfstæði geðfatlaðs fólks og virkari þátttöku þeirra í samfélaginu.
Valdefling geðfatlaðra
Við upphaf verkefnisins var ráðist í stefnumótun í málefnum geðfatlaðra. Stefnan ásamt verkáætlun var kynnt árið 2006. Í henni endurspeglaðist meðal annars hugmyndafræði valdeflingar sem snýst um að veita geðfötluðum aukið val og vald yfir eigin tilveru og lífi með því að stórauka áhrif þeirra á umhverfi sitt.
Verkefnisstjórn skipuð fulltrúum félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis stýrði verkefninu. Henni til aðstoðar var ráðgjafarhópur notenda og aðstandenda og framkvæmdahópar fagfólks. Straumhvörf hafa fjármagnað, bæði sjálfstætt og í samstarfi við aðra, um 130 íbúðir. Svæðisskrifstofur um land allt og einnig nokkur sveitarfélög héldu utan um rekstur þessara nýju þjónustukjaran. Á miðju tímabilinu tók Reykjavíkurborg við rekstri allra búsetukjarna í borginni og um áramót munu önnur sveitarfélög gera slíkt hið sama í tengslum við yfirfærslu þjónustu við fatla fólk frá ríki til sveitarfélaga.
Straumhvarfaverkefnið er í eðli sínu frumkvöðlaverkefni. Það endurspeglar framkvæmd nýrrar sýnar og hugmyndafræði sem kveðið var á um í yfirlýsingu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um geðheilbrigði frá ráðherrafundi Evrópuþjóða í Helsinki árið 2005.