Alþingi samþykkti lög um mannvirki
Alþingi samþykkti í dag frumvarp umhverfisráðherra til laga um mannvirki. Markmið nýju laganna er að auka öryggi og gæði mannvirkja, efla neytendavernd, gera stjórnsýslu mannvirkjamála sem skilvirkasta, auka faglega yfirsýn í málaflokknum og tryggja samræmt byggingareftirlit um land allt.
Samkvæmt lögunum verður sett á fót sérstök Mannvirkjastofnun um næstu áramót sem tekur við málefnum Brunamálastofnunar auk verkefna er varða byggingarmál. Samhliða því verður Brunamálastofnun lögð niður. Starf forstjóra Mannvirkjastofnunar verður auglýst á næstunni.
Mannvirkjastofnun mun samræma byggingareftirlit í landinu og brunavarnir og stofnunin mun til dæmis fara með aðgengismál, rafmagnseftirlit og rannsóknir á tjónum á mannvirkjum. Mannvirkjastofnun hefur einnig það hlutverk að reka Brunamálaskólann. Þá mun stofnunin halda rafrænt gagnasafn um mannvirki og mannvirkjagerð, til dæmis skoðunarhandbók, hönnunargögn, eftirlitsskýrslur, úttektarvottorð og lista yfir byggingarstjóra, hönnuði og meistara.
Mannvirkjastofnun mun gefa út skýrslu á hverju ári um stöðu og þróun mannvirkjagerðar í landinu í því skyni að auka yfirsýn yfir þennan víðfeðma og flókna málaflokk.
Samkvæmt lögunum er leitast við að tryggja öguð vinnubrögð þeirra sem að mannvirkjagerð koma með því að gera kröfu um að þeir starfi samkvæmt gæðastjórnunarkerfi. Vonast er til að það leiði til bættra vinnubragða við mannvirkjagerð og verði þar með til hagsbóta fyrir neytendur.
Meginþungi byggingareftirlits mun áfram verða í höndum byggingarfulltrúa sveitarfélaga en samkvæmt nýju lögunum mun Mannvirkjastofnun hafa beinan íhlutunarrétt ef stjórnsýsla byggingarfulltrúa er ekki í samræmi við lög. Þannig getur stofnunin til dæmis stöðvað framkvæmdir og svipt byggingarstjóra starfsleyfi ef hann vanrækir hlutverk sitt. Í lögunum eru ítarlegri ákvæði en áður um hlutverk og skyldur byggingarstjóra og nú má hann til dæmis ekki vera iðnmeistari eða hönnuður mannvirkis sem hann er jafnframt byggingarstjóri yfir.
Sérstak byggingaröryggisgjald mun fjármagna starfsemi Mannvirkjastofnunar. Ekki er um nýtt gjald að ræða heldur hefur ákvæði um svokallað brunavarnagjald, sem innheimt hefur verið á grundvelli laga um brunavarnir, verið fært inn í frumvarp til laga um mannvirki.