Hoppa yfir valmynd
17. desember 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra við vígslu húss Náttúrufræðistofnunar Íslands

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp við vígslu húsnæðis Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti föstudaginn 17. desember 2010.

Ágæta starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands og aðrir gestir.

Það er mér mikill heiður að vera viðstödd formlega vígslu nýs húsnæðis Náttúrufræðistofnunar Íslands, húsnæðis sem stofnunin hefur beðið eftir í 120 ár. Ég vil nota þetta tækifæri og óska sérstaklega núverandi og fyrrverandi starfsfólki Náttúrfræðistofnunar Íslands til hamingju með þennan mikilvæga áfanga og um leið þakka ykkur fyrir þá þolimæði sem þið hafið sýnt og það óeigingjarna starf sem þið hafið skilað til íslensku þjóðarinnar þrátt fyrir lélegan aðbúnað og oft á tíðum lítinn skilning á mikilvægi og eðli starfa ykkar.

Náttúrufræðistofnun Íslands á rætur að rekja allt aftur til ársins 1889 þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað. Á fyrstu árum félagsins fólst starfsemin fyrst og fremst í því að safna ýmiss konar náttúrugripum úr dýra-, jurta og steinaríkinu. Umfang félagsins jókst umfram það sem einstaklingar réðu við sem og það viðhorf að ekki væri nóg að safna náttúrugripum heldur þyrfti að rannsaka þá til að auka skilning á þeim.

Frá 1909 greiddi íslenska ríkið laun tveggja starfsmanna sem fengu í byrjun vinnuaðstöðu í Þjóðminjasafninu. Sýning safnagripa var þá í safnahúsinu við Hverfisgötu en það húsnæði var til bráðabirgða og var sýningarhald þar lengstum í óþökk húsráðenda.

Árið 1947 færði Náttúrufræðifélag Íslands ríkinu safn sitt af náttúrugripum til varðveislu og árið 1951 voru sett lög um Náttúrugripastofnun Íslands. Enn var reynt að finna lausn á húsnæðisvanda stofnunarinnar og snemma á sjötta áratugnum virtist sú lausn í sjónmáli. Búið var að teikna hús fyrir stofnunina, öll tilskilin leyfi lágu fyrir, og fjármagn var tryggt en innflutningsskrifstofan átti eftir að veita leyfi fyrir gjaldeyri til að borga byggingarefni hússins. Á þessum tíma var kreppa í íslensku samfélagi og mikill gjaldeyrisskortur og fékkst því ekkert leyfi, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, til þess að hefja byggingu hússins. Það var því úr að Náttúrugripastofnun Íslands sem síðar varð Náttúrufræðistofnun Íslands fékk húsnæði til bráðabirgða við Hlemm.

Barátta fyrir framtíðarhúsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands hélt áfram næstu árin og er sú saga of löng til að rekja hana hér. Þegar húsnæðismál stofnunarinnar voru til umræðu í fjölmiðlum virtust allir vera á sama máli um að stofnunin þyrfti framtíðarhúsnæði og að bráðabirgðahúsnæðið við Hlemm væri óviðunandi.

Í morgunblaðinu þann 24. janúar 1988 birtist m.a. heilsíðufrétt með eftirfarandi fyrirsögn “Náttúrufræðifélagið aldargamalt – náttúrugripasafnið enn í bráðabirgðahúsnæði. Stjórnskipuð nefnd hefur skilað áliti um framtíðarskipan Náttúrufræðistofnunar”. Sú nefnd sem hér er vísað til var ein af tæplega tuttugu stjórnskipuðum nefndum sem settar voru á laggirnar til að vinna að tillögum um framtíðarskipan í húsnæðismálum stofnunarinnar.

Ekki dró til tíðinda í húsnæðismálum Náttúrufræðistofnunar fyrr en vorið 2008 þegar þáverandi umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, tók fyrstu skóflustunguna hér í Urriðaholti.

Ég nefndi hér áðan kreppu og gjaldeyrisskort sem einkenndi íslenskt samfélag snemma á sjötta áratugnum þegar allt benti til þess að framtíðarhúsnæði Náttúrugripastofnunar, eins og hún hét þá, yrði að veruleika. Það skal því engan undra að farið hafi um starfsmenn Náttúrufræðstofnunar þegar hrunið skall á haustið 2008 þegar hefjast átti handa við bygginguna hér í Urriðaholtinu. En sem betur fer var ákveðið að halda áfram byggingu hússins þrátt fyrir kreppu, gjaldeyrishöft og erfiðar aðstæður í ríkisfjármálum.

Fyrir þann sem kynnir sér húsnæðissögu Náttúrufræðistofnunar Íslands öðlast hugtakið „bráðabirgða-húsnæði“ algjörlega nýja merkingu en stofnunin og starfsfólk hennar hefur verið í slíku húsnæði til bráðabirgða frá upphafi. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hefur Náttúrufræðistofnun Íslands tekist að vaxa og ávinna sér mikilvægan sess sem ein af lykilstofnun íslensks samfélags rétt eins og sú lykilstofnun sem heldur utan um íslenska tungu. Saga stofnunarinnar er saga allra þeirra sem með ævistarfi sínu hafa komið að náttúruvísindum og miðlað þekkingu sinni til Íslendinga af einlægni og alúð. Hvort heldur sem sú miðlun hefur farið fram í bundnu máli líkt og Fjallið Skjaldbreiður, ferðavísa Jónasar Hallgrímssonar sem lýsir fjölbreytileika og sérstöðu íslenskrar náttúru, eða með nútíma tölvutækni eins og hinn vinsæli pödduvefur sem fjölmargir heimsækja til að forvitnast um nýja landnema sem ýmist þvælast með vindum eða eru slæðingar með varningi.

Kjarni Náttúrufræðistofnunar Íslands eru þeir fræðimenn og konur sem stofnunin hefur haft innan sinna ranna. Náttúruvísindafólk og náttúruunnendur sem af hugsjón hafa tileinkað ævistarf sitt íslenskri náttúru. Fræðimenn og konur sem áfram leggja fram störf sín til náttúruvísinda þrátt fyrir að vera komin á efri aldur.

Fræðimenn og konur sem þrátt fyrir lélegan aðbúnað og fjárskort hafa nýtt allar leiðir til að halda rannsóknum sínum áfram, hugsað út fyrir rammann, og fundið lausnir. Í þessu sambandi og að öllum ólöstuðum nefni ég sérstaklega hugmynd Ólafs K. Nielsen, fuglafræðings, sem stóð frammi fyrir því að ekki var til fjármagn til að taka röntgenmyndir af hræjum friðaðra fugla, eins og arna og fálka, til að kanna dánarorsök þeirra. Ólafur fékk þá snilldarhugmynd að leita aðstoðar hjá tollvörðum á Keflavíkurflugvelli og fékk leyfi til þess að renna fuglunum í gengum vopnaleitatæki til að kanna hvort skot væri að finna í hræjum fuglanna. Ég er nokkuð viss um að engum hafi dottið það í hug þegar að vopnaleitartækin voru sett upp til að gegnumlýsa farangur mismunandi flugfarþega að þau yrðu seinna meir notuð til að skanna dánarorsök friðaðra fugla á Íslandi. Þessi saga er án efa gott dæmi um þær lausnarmiðuðu hugmyndir og það hugmyndaauðgi sem oft hefur þurft að grípa til í þessari stofnun.

En þó svo að kjarni Náttúrufræðistofnunar Íslands byggi á því fólki sem unnið hefur að náttúruvísindum í mörg ár, þá endurspegla byggingar áherslur þjóðar og þann sess sem starfsemi helstu stofnanna hennar er skipað. Starfsemi sem býr við slæman húsakost fær starfsmenn til að upplifa að starf þeirra njóti ekki skilnings og virðingar.

Við þekkjum baráttusögu margra félaga og stofnana fyrir húsnæði sem sómir starfsemi þeirra. Það þarf ekki annað en að nefna baráttu fyrir byggingu tónlistarhús, baráttu Leikfélags Reykjavíkur fyrir framtíðarhúsnæði, sagan um byggingu Þjóðleikhússins sem var vígt fyrir 60 árum og Þjóðmenningarhúsið sem var byggt af þjóð í kreppu. Þótt það hús gegni ekki lengur því hlutverki sem því var upphaflega ætlað þá segir það mikilvæga sögu um áherslur þjóðar um hvernig hún vill skipa húsnæðismálum sinna helstu stofnana.

Góðir gestir,

Það eru mikil þáttaskil fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands að vera komin í húsnæði sem er nákvæmlega ætlað fyrir stofnunina og er starfseminni loksins búin sú umgjörð sem henni ber. Í þessari vistvænu byggingu hefur ómetanlegum náttúru- og rannsóknargripum verið komið fyrir í svokölluðu fágætaherbergi en þar er meðal annars varðveittur Geirfuglinn, dagbækur Benedikts Gröndals náttúrufræðings og fleiri dýrgripir sem segja sögu þjóðarinnar á sviði náttúruvísinda. Náttúrugripir og rannsóknargögn allt frá tímum Jónasar Hallgrímssonar og Eggerts Ólafssonar hafa fengið þann sess sem þeim sæmir í glæsilegum og aðgengilegum herbergjum auk þess sem við hefur bæst aðbúnaður eins og ýldingarherbergi sem er nýtt fyrirbæri. Þá er allur aðbúnaður starfsmanna til rannsókna og samvinnu til mikillar fyrirmyndar.

Formleg opnun nýs húsnæðis fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands er mikilvægur þáttur í endurreisn Íslands. Í samstarfsyfirlýsingu ríkistjórnarinnar er lögð áhersla á að náttúruvernd verði hafin til vegs og staða hennar innar stjórnarráðsins styrkt til muna.

Sem ráðherra umhverfis- og náttúruverndarmála hef ég skipað náttúruvernd efst í forgangsröðun áherslumála og lagt á það ríka áherslu að styrkja stöðu íslenskrar náttúru sem því miður hefur verið alltof veik innan stjórnarráðsins og í samfélaginu til langs tíma. Í því felst meðal annars að taka afstöðu með náttúrunni, standa með henni og skapa það rými sem hún þarf í umræðunni. Menn hafa brugðist illa við sem er eðlilegt þegar vikið er frá venjum og orðræðan hefur verið hvöss og óvægin. En viðbrögðin eru eðlileg og ófrávíkjanlegur þáttur í því að breyta áherslum í íslensku samfélagi. Nýtt húsnæði Náttúrufræðistofnunar endurspeglar nýjar áherslur, nýja tíma og nýtt upphaf um hvað það er sem skiptir máli í íslensku samfélagi og hvaða stofnanir það eru sem við viljum leggja áherslu á með því að hýsa starfsemi þeirra með sómasamlegum hætti. Það er komin tími til að við sýnum íslenskri náttúru þá virðingu og auðmýkt sem henni ber.

Í því ímyndaða kerfi sem réði forgangsröðun stjórnvalda á árunum fyrir hrun, þar sem náttúru Íslands var beitt sem myndefni í auglýsingum til að sýna kraft og sérstöðu íslenska fjármálakerfisins, var hún ekki raunveruleg. Íslensk náttúra verður ekki raunveruleg nema að við getum skynjað hana, skilið hana og borið gæfu til að varðveita hana og virða. Það má kannski segja að jarðbundna náttúrubarnið Ugla, sem kom úr sveitinni að norðan í höfuðstaðinn þegar miklar breytingar áttu sér stað í íslensku samfélagi og Nóbelsskáldið fjallaði um í Atómstöðinni hafi komist að kjarna málsins þegar hún sagði.:

„Ekkert finst mér lýsa annarri eins fyrirlitningu á náttúrunni og málverk af náttúrunni: ég kem við fossinn og vökna ekki, og það er einginn niður; þarna er lítið hvítt ský og stendur kyrt í staðinn fyrir að leysast sundur; og ef ég þefa af þessari fjallshlíð rek ég nefið í storku og finn efnafræðilega lykt, þegar best lætur angarkeim af fernisolíu; og hvar eru fuglarnir; og flugurnar; og sólin svo maður fær ofbirtu í augun eða þokan svo maður sér aðeins glitta í næsta víðirunn? Jú víst á þetta að vera sveitabær, en með leyfi hvar er lyktin af kúaskítnum?

Til hvers er verið að gera mynd sem á að vera einsog náttúra, þegar allir vita að slíkt hið eina sem mynd getur ekki verið og á ekki að vera og má ekki vera.“

Náttúra Íslands verður aldrei eftirmynd eða frásögn. Hún stendur fyrir sínu á eigin forsendum.

Ég vona svo sannanlega að við sem þjóð berum gæfu til að skipa íslenskri náttúru þann sess sem henni ber og varðveita hana fyrir komandi kynslóðir. Formleg opnun nýs húsnæðis Náttúrufræðistofnunar Íslands í dag er mikilvægt skref í þeirri vegferð okkar.

Ég vil að lokum óska okkur öllum en þó sérstaklega starfsmönnum Náttúrufræðistofnunar Íslands til hamingju með nýja húsnæðið og vona að þið eigið eftir að eiga hér góðar stundir og starfssamar stundir íslenskri náttúru og þjóð til heilla.

Takk fyrir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta