Lokaráðstefna Evrópuárs 2010 gegn fátækt og félagslegri einangrun
Senn lýkur Evrópuári 2010 gegn fátækt og félagslegri einangrun og af því tilefni var haldin vegleg lokaráðstefna í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Þar voru kynnt helstu verkefni og rannsóknir er hlutu styrk í tilefni Evrópuársins. Einnig voru kynntar helstu niðurstöður fundar með þjóðfundarsniði sem haldinn var í maí og fjallaði um fátækt og félagslega einangrun. Í ávarpi á ráðstefnunni lagði félags- og tryggingamálaráðherra áherslu á að þrátt fyrir að Evrópuárinu væri nú að ljúka héldi baráttan gegn fátækt og félagslegri einangrun áfram.
„Evrópuárinu lýkur senn en baráttunni gegn fátækt og félagslegri einangrun er síður en svo lokið. Mikilvægur grunnur hefur hins vegar verið lagður með þessu átaki þar sem fjölda verkefna hefur verið ýtt úr vör. Megintilgangur verkefnisins var að auka vitund almennings um aðstæður þeirra einstaklinga sem búa við fátækt og félagslega einangrun, en að sama skapi að vinna að því að gera fólki kleift að rjúfa vítahring fátæktar og félagslegra einangrun. Ég tel að okkur hafi orðið vel ágengt með þessi markmið“ sagði Guðbjartur Hannesson félags- og tryggingamálaráðherra, en ráðuneyti hans var framkvæmdaaðili Evrópuársins 2010 á Íslandi.
Aukið upplýsingaflæði, virðing og virkni
Alls voru 21 verkefni eða rannsóknir styrkt hérlendis af Evrópuárinu 2010 og hafa mörg þeirra blómstrað fram úr vonum og jafnvel getið af sér fleiri verkefni. Auk þessa var fjöldi annarra verkefna skipulagður í tilefni ársins og má þar nefna ljósmyndasýningu, bíósýningar og fundi. Mikilvægur þáttur í Evrópuárinu 2010 var að skapa umræðu um fátækt og félagslega einangrun þar sem einblínt hefur verið á lausnir og leiðir út úr vandanum“ segir Linda Rós Alfreðsdóttir, verkefnisstjóri ársins. Fjölmiðlar tóku virkan þátt í umfjölluninni en hátt í 100 fréttainnslög birtust vegna verkefna tengdum árinu.
Einn af hápunktum Evrópuársins hérlendis var stór fundur með þjóðfundarsniði um fátækt og félagslega einangrun, þar sem komu saman þeir sem upplifa fátækt og félagslega einangrun, stjórnmálamenn og aðilar sem vinna að málefnum þessa fólks. Helstu niðurstöður fundarins hafa verið teknar saman og afhentar ráðherra.
„Við munum fara vandlega yfir þessar niðurstöður og taka mið af þeim þegar kemur að stefnumótun ráðuneytisins. Betur sjá augu en auga og það er lykilatriði að við stöndum öll saman í þessari baráttu, bæði þeir sem upplifa fátækt og félagslega einangrun og þekkja vel af eigin reynslu hvar hnökrana er að finna, sem og þeir sem veita þeim þjónustu. Það er sameiginlegt takmark okkar allra að eyða því þjóðfélagsmeini sem felst í fátækt og félagslegri einangrun...,“ sagði ráðherra.
Meðal helstu niðurstaðna fundarins má nefna nauðsyn þess að auka upplýsingaflæði um ýmsa þjónustu sem boðið er upp á og einnig er lögð áhersla á mikilvægi menntunar og aðgengi að námskeiðum. Þá sé nauðsynlegt að virðing sé borin fyrir öllum og mikilvægt er að skilgreina lágmarksframfærslu.
„Þetta eru mikilvæg atriði sem við þurfum að vinna að. Nú er unnið að því að skilgreina neysluviðmiðin og vonumst við til að geta kynnt niðurstöður þar um von bráðar segir félags- og tryggingamálaráðherra.
Mikilvægar rannsóknir, stofnun veitingahúss og sjálfsstyrkingarnámskeið
Meðal áhugaverðra erinda á ráðstefnunni í dag má nefna umfjöllun um rannsóknir á líðan og stöðu atvinnulausra, rannsókn á áhrifum starfsendurhæfingar og rannsókn á fátækt og félagslegum aðstæðum öryrkja.
Fjölmörg verkefni hafa notið stuðnings Evrópuársins og voru mörg þeirra kynnt á rástefnunni í dag, s.s. sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir konur og fyrir pólska karlmenn og eins má nefna Mömmueldhúsið sem var stofnað á árinu til að berjast gegn atvinnuleysi kvenna af erlendum uppruna.
Meðal áhugaverðra rannsókna og verkefna sem tengdust árinu má nefna:
Ljósmyndasýning og útgáfa póstkorta í framhaldi af námskeiði meðal listnema í Listaháskólanum sem unnin var í samstarfi við fólk sem upplifir fátækt eða félagslega einangrun.
Fundur með þjóðfundarsniði um fátækt og félagslega einangrun, tillögur sem komu fram á fundinum hafa nú verið afhentar ráðsherra og verður unnið með þær.
Blaðamannasamkeppni á vegum Evrópuársins sem Trausti Hafsteinsson á DV vann. Í dag, föstudag, kemur í ljós hvort vinningsgrein hans hlýtur verðlaun á Evrópuvettvangi keppninnar í Brussel.
Samstarf við Vesturport um ókeypis sýningar á myndinni Börn, en myndin var sýnd bæði í Reykjavík og á Ísafirði auk þess sem erindi voru flutt.
Á menningarnótt var Hlutverkasetrið með knús í boði sem átti að vinna gegn fordómum á fólki sem er félagslega einangrað.
Stofnun Veraldarinnar okkar, mömmueldhúss á Akranesi sem spornar gegn atvinnuleysi kvenna sem eru af erlendu bergi brotnar.
Rannsókn á áhrifum starfsendurhæfingar – dregur verulega úr stórum áhrifaþáttum fátæktar og félagslegrar einangrunar.
Stuttmynd um konu sem bjó við mikla félagslega einangrun og hvaða áhrif virkniúrræði hafa haft fyrir hana.
Útvarpsþáttaröðin Harðgrýti fátæktar sem Rás 1 varpaði út.
Ýmis sjálfstyrkingarnámskeið, m.a. fyrir konur, fanga og innflytjendur.
Stuðningur við ráðstefnur um barnafátækt sem og matargjafir og þriðja geirann
Samstarfsverkefni með Þjóðkirkjunni þar sem kirkjuklukkum var hringt lengur út einn daginn til að minna á baráttuna gegn fátækt og félagslega einangrun.