Hoppa yfir valmynd
17. desember 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 76/2010 - Ákvörðun um hlutdeild Íslands í makrílveiði fyrir árið 2011

 

Í fréttatilkynningu ráðuneytisins, dags. 30. nóvember 2010, var skýrt frá því að Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði ákveðið að Ísland tæki sér óbreytta hlutdeild í makrílveiðum á næsta ári, að teknu tilliti til aukningar í ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). Ráðið hafði lagt til að leyfilegur heildarafli næsta árs yrði allt að 646.000 tonn, en ráðgjöfin fyrir þetta ár hljóðaði upp á allt að 572.000 tonn. Beindi ráðherra því til hinna strandríkjanna að taka tillit til hlutdeildar Íslands við kvótaákvarðanir sínar með það í huga að heildarveiðar færu ekki fram úr vísindalegri ráðgjöf.

ESB og Noregur hafa nú tekið ákvörðun um makrílveiði sína fyrir næsta ár og nema þeir samtals 583.882 tonnum eða rúmlega 90% af ráðlögðum heildarafla. Ljóst er af því að þessir aðilar hafa ekki tekið tillit til lögmætra hagsmuna strandríkjanna Íslands og Færeyja né Rússlands. Kvótaákvörðun ESB og Noregs er því í raun og veru ákvörðun um að heildarveiðar á makríl á næsta ári fari fram úr ráðlögðum heildarafla og er fullri ábyrgð vegna þessa vísað á hendur þeim.

Í samræmi við framangreint hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákveðið að makrílveiði Íslands á árinu 2011 verði 146.818 tonn en kvóti þessa árs var 130.000 tonn.

Reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra skipa árið 2011.

 

 Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu,

17. desember 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta