Rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs
Þingsályktunartillaga um að fram fari sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs var samþykkt samhljóða á Alþingi í dag.
Rannsóknin mun ná aftur til ársins 1999 þegar Íbúðalánasjóður var stofnaður með sameiningu Byggingarsjóðs ríkisins og og Byggingarsjóðs verkamanna. Ákvörðun um rannsókn byggist á ályktun rannsóknarnefndar Alþingis um að breytingar á fjármögnun og lánareglum Íbúðalánasjóðs hafi stuðlað að ójafnvægi í hagkerfinu og falið í sér ein af stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda að falli bankanna. Rannsóknin mun beinast að ákvörðun og framkvæmd breyttrar fjármögnunar með íbúðabréfum í stað húsbréfa og áhrif rýmri útlánareglna. Fjármögnun Íbúðalánasjóðs á útlánum viðskiptabanka og sparisjóða og áhættustýring sjóðsins verður einnig rannsökuð.
Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, segir engan áfellisdóm felast í ákvörðun um rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs. „Það er hins vegar afar mikilvægt að rannsóknin fari fram í ljósi ályktana rannsóknarnefndar Alþingis. Þetta er einn liður í þeirri umfangsmiklu skoðun sem nauðsynleg er á mörgum þáttum samfélagsins í kjölfar bankahrunsins. Við sjáum síðar hvað niðurstöður rannsóknarinnar munu leiða í ljós.“