Tímabundin heimild fyrir rekstrarfé úr Framkvæmdasjóði aldraðra
Alþingi samþykkti í dag breytingu á lögum um málefni aldraðra sem heimilar að fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra verði varið til reksturs hjúkrunarheimila árið 2011. Áætlað er að verja allt að 700 milljónum króna úr sjóðnum í þessum tilgangi.
Þrátt fyrir áætluð rekstrarframlög úr sjóðnum verða til ráðstöfunar á næsta ári um 500 milljónir króna úr sjóðnum til endurbóta og viðhalds á öldrunarstofnunum. Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, segir að óhjákvæmilegt hafi verið að nýta fé úr sjóðnum til reksturs öldrunarstofnana svo ekki þyrfti að skerða þjónustu eða fækka rýmum frekar en orðið er. Ríkisstjórnin samþykkti í október 2009 að hefja samstarf við níu sveitarfélög um byggingu hjúkrunarheimila samkvæmt svokallaðri leiguleið. Breytingar voru gerðar á lögum um Íbúðalánasjóð sem tóku gildi 1. janúar 2010 og heimila sjóðnum að lána sveitarfélögum fé til uppbyggingar hjúkrunarheimila. Veitt er lán fyrir allt að 100% af framkvæmdakostnaði en á móti greiðir ríkið húsaleigu til sveitarfélagsins sem ígildi stofnkostnaðar og er leigusamningurinn til 40 ára. Ráðherra segir að þessi leið til að fjármagna byggingu hjúkrunarrýma hafi gert mögulegt að ráðast í framkvæmdir sem annars hefðu verið útilokaðar við núverandi aðstæður.