Samkeppnisstaða gagnavera á Íslandi tryggð til frambúðar
Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum um virðisaukaskatt sem tryggja gagnaveraiðnaðinum á Íslandi jafna samkeppnisstöðu við evrópsk gagnaver bæði hvað varðar virðisaukaskatt á útfluttri þjónustu og búnaði í eigu viðskiptavina. Þetta er mikilvægur áfangi og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sagði við afgreiðslu málsins að hún vænti þess að þetta sé upphafði að nýjum og blómlegum grænum iðnaði á Íslandi, byggðum á hugviti, þekkingu og vistvænni orku.
Þar sem aðeins er um jöfnun á samkeppnisstöðu að ræða hefur áhersla verið lögð á að ekki sé um að ræða ríkisaðstoð í skilningi 61. greinar EES samningsins. Til að gæta fyllstu varúðar og brjóta ekki gegn málsmeðferðarreglum Eftirlitsstofnunar EFTA mun breytingin ekki taka gildi fyrr en 1. maí nk. svo stjórnvöld hafa tíma til að upplýsa ESA um breytingarnar og fá staðfest að ekki sé um að ræða ólögmæta ríkisaðstoð.
Eins og algengt er í íslenskri löggjöf þegar verið er að stíga ný skref er gert ráð fyrir að breytingarnar séu endurskoðaðar innan tveggja ára. Þá er tilefni til að meta hvort ný lagaákvæði séu að skila væntum árangri eða hvort gera þurfi frekari endurbætur.