Samstarfsvettvangur um samgöngumál í undirbúningi
Samönguráð undirbýr nú stofnun samstarfsvettvangs um samgöngumál í samræmi við samgönguáætlun 2009 til 2012. Aðilar að slíkum samstarfsvettvangi eru auk samgönguráðs háskólar, rannsóknarstofnanir og hagsmunaaðilar.
Hugmyndin með samstarfsvettvangi sem þessum er að leiða saman sérfræðinga, hagsmunaaðila og stjórnvöld með það að markmiði að miðla upplýsingum um nýja þekkingu og nýja þekkingarþörf og yrði hann opinn öllum hagsmunaaðilum um rannsóknir og þróun í samgöngumálum. Hann yrði grunnur að öflugu, þverfaglegu samstarfsneti um samgöngurannsóknir. Ætlunin er að þátttakendur setji fram tillögur sínar að stefnumótun og sæki sameiginlega um styrki til einstakra verkefna.
Á undirbúningsfundi sem haldinn var í ráðuneytinu í síðustu viku voru meðal annars flutt erindi um rannsóknir Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar og rætt um markmið og fyrirkomulag starfsemi samstarfsvettvangs. Einnig var fjallað um stefnu að rannsóknar- og þróunaráætlun en stofnanir samgöngumála reka nú umfangsmikla rannsóknastarfsemi. Með samstarfsvettvangi sem þessum verður í senn unnt að styrkja samvinnu við samgöngurannsóknir og auka umfang þeirra.