Hoppa yfir valmynd
20. desember 2010 Matvælaráðuneytið

Sautján konur útskrifast af námskeiðinu Brautargengi

Brautargengisútskrift desember 2010
Brautargengisútskrift desember 2010

Námskeiðið Brautargengi á Nýsköpunarmiðstöð Íslands hóf göngu sína fyrir 14 árum síðan og hafa í kringum 820 konur lokið námskeiðinu og skrifað heildstæða viðskiptaáætlun í kringum ákveðna hugmynd síðan þá. Þátttakendur á Brautargengi vinna með eigin viðskiptahugmynd á meðan á náminu stendur og koma hugmyndirnar úr ýmsum áttum. Segja má að hugmyndirnar spanni litróf nýsköpunar og þá aðallega í skapandi greinum.

ÍIðnaðarráðherra tók þátt í útskriftinni og ávarpaði hópinn og óskaði þeim til hamingju við þessi tímamót. Ráðherra talaði meðal annars um mikilvægi fjölbreytts atvinnulífs í og nefndi sérstaklega þá endurhugsun sem þarf að eiga sér stað á stoðkerfi nýsköpunar í viðleitninni við að gera kerfið sveigjanlegra og þar af leiðandi betur í stakk búið til að bregðast hratt og örugglega við örum breytingum á markaði. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur boðið upp á Brautargengi í hartnær 15 ár og hefur námskeiðið á þessum tíma sannað gildi sitt og nauðsyn í virkni mannauðsins og þar með kraft kvenna. Verkefnið hefur veitt mörgum góðum hugmyndum brautargengi á þessum árum og hjálpað til við að búa til blómlegt atvinnu- og efnahagslíf. 


Sérstakar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur
Að þessu sinni hlutu þrjár konur sérstök verðlaun sem Bjarnheiður Jóhannsdóttir, verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra sáu um að afhenda. Fyrir bestu fjárfestakynninguna hlaut Jóhanna Reykjalín með fyrirtækið Hunda-Hanna viðurkenningu en kynningin skilaði á hrífandi hátt þekkingu stofnanda á hegðun og lærdómsferli hunda og manna, sérstöðu þjónustunnar og síðast en ekki síst heitri ástríðu fyrir viðfangsefninu.

 Johanna Reykjalin

 

 

 

Á myndinni má sjá Jöhönnu taka við viðurkenningunni frá Bjarnheiði Jóhannsdóttur, verkefnisstjóra:

Fyrir bestu viðskiptaáætlunina var það Guðrún Ingvarsdóttir með fyrirtækið Plan arkitektar sem hlaut sérstaka viðurkenningu, en áætlunin þótti sérlega vönduð í alla staði og draga fram áherslur fyrirtækisins um vistvæna nálgun, samfélagslega ábyrgð og gæði í þjónustu og lausnum.

Guðrún IIngvarsdóttir

Á myndinni má sjá Guðrúnu ásamt Kartínu Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra og Bjarnheiði Jóhannsdóttur:

Nýsköpunarviðurkenningu hlaut Guðrún Steingrímsdóttir fyrir fyrirtækið Tara Mar, en þar er á ferðinni nýsköpun í snyrtivöruframleiðslu þar sem notuð eru lífvirk efni úr íslensku sjávarfangi og nýjar leiðir til að bera þau inn í dýpstu lög húðarinnar. Teymi fjögurra kvenna með mikla þekkingu á sviði vísindarannsókna, heilsu, hönnunar og verkefnastjórnunar stendur á bak við fyrirtækið.

Guðrún Steingrímsdóttir

Á myndinni má sjá Guðrúnu ásamt samstarfsfélaga sínum í Tara Mar auk Katrínar og Bjarnheiðar:

Brautargengi kemur atvinnulífinu til góða
Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem framkvæmd var á árinu á árangri Brautargengis eru 55% þeirra kvenna sem lokið hafa Brautargengisnámi með fyrirtæki í rekstri og það yfirleitt í verslun og þjónustu. Fyrirtækin eru allflest með 10 starfsmenn eða færri en þó nokkur eru með yfir 30 starfsmenn. Óhætt er því að segja að Brautargengisnám komi atvinnulífinu til góða þar sem kraftar kvenna nýtast í störfum sem annars hefðu ekki orðið til.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta