Tveir heilsuferðapakkar fá hvatningarverðlaun
Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, afhenti í dag fyrstu Hvatningarverðlaun í heilsuferðaþjónustu á Íslandi. Tveir áhugaverðir heilsuferðapakkar ætlaðir erlendum ferðamönnum fengu verðlaun að upphæð ein milljón króna hvor. Verðlaunahafarnir eru Hreyfistjórn ehf. í samvinnu við Breiðu bökin ehf., Fjallamenn ehf. og Icelandair Hótel Hamar fyrir verkefnið „Why not treat your backpain in spectacular surroundings“ og Bláa lónið í samvinnu við Icelandair, Kynnisferðir og Hreyfingu fyrir verkefnið „Blue Lagoon Psoriasis meðferð – ný intensive meðferð“.
Auglýst var eftir umsóknum fyrir verðlaunin og bárust 23 tillögur frá 20 aðilum. Til að koma til greina sem handhafi verðlaunanna þurftu verkefnin að uppfylla sjö skilyrði:
1. Þrír eða fleiri aðilar/fyrirtæki koma að heilsuferðinni og skal nafn og hlutverk hvers og eins skilgreint nákvæmlega á umsóknareyðublaðinu.
2. Ferðin sé ætluð erlendum vel skilgreindum markhópum.
3. Heilsuferðirnar verði metna út frá nýnæmi og framtíðarmöguleikum þeirra.
4. Heilsuferðin sé amk. 3 sólarhringar og sé í boði utan háannatíma.
5. Heilsuferðin falli að skilgreiningu á vellíðunar- eða heilsuferðaþjónustu
6. Tilgangur ferðarinnar sé að efla heilsu viðskiptavinar.
7. Ávinningur af ferðinni sé skilgreindur.
Um verðlaunaverkefni Hreyfistjórnar ehf. sagði dómnefnd meðal annars: „Í verkefninu er notuð þekkingaryfirfærsla og íslensk nýsköpun til að búa til áhugaverða og nýja afurð í ferðaþjónustu þar sem fólki er boðið upp á greiningu, meðferð og þjálfun við mjóbaksvandamálum. [...] Ferðin er þannig uppbyggð að gestirnir koma til með að gista á Hótel Hamri í þægilegu umhverfi þar sem greining, þjálfun og fræðsla fer fram undir handleiðslu sér hæfðra starfsmanna Hreyfistjórnunar ehf. og Breiðu baka ehf. Þá býðst getum að nýta sér fjölbreytta afþreyingu sem í boði er á svæðinu og munu Fjallamenn ehf. sjá um að skipuleggja þann þátt feðarinnar.“
Um verðlaunaverkefni Bláa lónsins sagði dómnefnd meðal annars: „Það hefur sýnt sig í áranna rás að psoriasis meðferð í Bláa Lóninu skilar verulegum árangri og er enn í stöðugri þróun og byggir auk þess á rannsóknum og reynslu fjölda einstaklinga. Hin nýja „intensive-meðferð“ miðar að því að stytta hefðbundna psoriasis meðferð um helming, eða í 1-2 vikur, en ná þó sama árangri. Er þetta í samræmi við óskir gesta erlendis frá sem sótt hafa hefðbundna meðferð. Nálgun meðferðarinnar er heildstæð og felur m.a. í sér ráðgjöf um mataræði, hreyfingu og boð um kynnisferðir. Verkefnið er sett fram sem hágæðaferð þar sem viðskiptavinir upplifi margt af því besta sem heilsulandið Ísland hefur upp á að bjóða.“
Til hvatningarverðlaunanna er stofnað að frumkvæði iðnðarráðherra til að fylgja eftir stofnun samtaka um heilsu- og lífsstílstengda ferðaþjónustu.
Margar þjóðir hafa náð miklum árangri á þessu sviðið og fólk fer langan veg til að sækja sér slíka þjónustu og upplifanir. Áhuginn á heilbrigðum lífsstíl fer vaxandi og sífellt fleiri sameina áhuga sinn á heilsueflingu og ferðalögum. Erlendar rannsóknir benda þess til að ferðamönnum sem sameina þetta tvennt fjölgi um 18% á heimsvísu árlega og stór hluti þeirra er frá helstu markaðssvæðum Íslands.
Hér er því um að ræða mikilvægt sóknarfæri fyrir íslenska ferðaþjónustu, ekki síst utan háannar.