Nýr framkvæmdastjóri ÞSSÍ
Utanríkisráðherra hefur skipað Engilbert Guðmundsson til að gegna embætti framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
Engilbert er fæddur árið 1948 og lauk mastersnámi í hagfræði frá viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn 1976. Hann stundaði framhaldsnám í þróunarfræðum við University of East Anglia í Bretlandi 1978-1979 og lauk námi til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands árið 1980. Þá hefur hann lokið stjórnendanámi fyrir yfirmenn hjá Alþjóðabankanum við Harvard Business School í Bandaríkjunum.
Engilbert hóf kennslu við Fjölbrautarskóla Vesturlands árið 1976 og gegndi starfi aðstoðarskólameistara þar frá 1979-1984. Hann hóf störf við þróunarmál árið 1985 og hefur starfað við þau óslitið síðan. Hann starfaði fyrir dönsku þróunarsamvinnustofnunina DANIDA í Tansaníu frá 1985-1990 og hjá Norræna þróunarsjóðnum (NDF) frá 1991-1998, þar af sem aðstoðarforstjóri í sex ár. Þá hóf hann störf hjá Alþjóðabankanum og starfaði þar frá 1998 fram á þetta ár, þar af sem umdæmisstjóri bankans í Sierra Leone 2006-2010. Hann starfar nú sem deildarstjóri hjá friðargæslu Sameinuðu þjóðanna í Sierra Leone.
Engilbert mun hefja störf sem framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands 1. mars 2011. Þar sem Sighvatur Björgvinsson, núverandi framkvæmdastjóri, lætur af störfum um áramót mun Þórdís Sigurðardóttir, skrifstofustjóri og staðgengill framkvæmdastjóra, verða sett til að gegna embættinu um tveggja mánaða skeið