Ályktun SÞ gegn aftökum án dóms og laga vísar áfram til kynhneigðar
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær ályktun gegn aftökum án dóms og laga, þar sem tilvísun til kynhneigðar er haldið inni. Ísland og hin Norðurlöndin stóðu þar gegn tilraunum hóps ríkja til að fjarlægja tilvísunina úr ályktuninni. Norðurlöndin fluttu m.a. sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau hörmuðu að tilvísunin hefði verið felld út úr ályktunartillögu í aðdraganda ályktunarinnar og hvöttu aðildarríki SÞ til að setja hana aftur inn, sem var samþykkt.
Ályktunin sem um ræðir er lögð fyrir allsherjarþingið annað hvert ár af hálfu Norðurlandanna. Þegar ályktunartillagan kom til afgreiðslu í nefnd allsherjarþingsins sem fjallar um mannréttindamál fengu samtök íslamskra ríkja, samtök Arabaríkja og samtök Afríkuríkja því framgegnt að tilvísun til kynhneigðar var tekin úr málsgrein þar sem rétturinn til lífs er áréttaður og stjórnvöld í aðildarríkjum SÞ hvött til að rannsaka gaumgæfilega og umsvifalaust öll manndráp innan þeirra lögsögu. Í viðkomandi málsgrein var kynhneigð tilgreind á lista yfir ástæður, sem leiða oft til þess að einstaklingar og þjóðfélagshópar standa höllum fæti.
Norðurlöndin og fleiri vestræn ríki mótmæltu þessari breytingu kröftuglega og lögðu hart að þeim ríkjum sem hana studdu, að láta af stuðningi sínum. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og starfsystkini hans á Norðurlöndunum sendu sameiginlegt bréf til Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra SÞ, í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar í allsherjarþinginu, þar sem honum var þökkuð barátta hans gegn allri mismunun og birtingarmyndum hennar, einkum ofbeldi og mismunun gegn einstaklingum byggðri á kynhneigð þeirra eða kynferðisvitund. Bréfinu var dreift til allra aðildarríkja SÞ.
Ályktunin um aftökur án dóms og laga var fyrst lögð fram af hálfu Norðurlandanna árið 1980. Markmið hennar er fyrst og fremst að stuðla að bættri framkvæmd mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, en aftökur án dóms og laga, auk refsileysis vegna alvarlegra brota gegn mannréttindum, viðgangast víða um heim.