Hoppa yfir valmynd
22. desember 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Staðgreiðsluhlutfall tekjuskatts og útsvars og persónuafsláttur fyrir árið 2011

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 28/2010

  • Meðalútsvarshlutfall sveitarfélaga verður 14,41% á nýju ári.
  • 66 af 76 sveitarfélögum leggja á hámarksútsvar, tvö sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar
  • Staðgreiðsluhlutfall tekjuskatts og útsvars verður í þremur þrepum; 37,31%, 40,21%  og 46,21%.
  • Mánaðarleg tekjumiðunarmörk þrepa verða 209.400 kr. í fyrsta þrepi, 471.150 kr. í öðru þrepi og 680.550 kr. í þriðja þrepi.
  • Persónuafsláttur hvers einstaklings verður óbreyttur eða 44.205 krónur að meðaltali á mánuði og skattleysismörk 123.417 kr. að teknu tilliti til 4% lögbundinna iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð.

Nýverið voru samþykkt á Alþingi lög um tilfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Við það mun bæði leyfilegt lágmarks- og hámarkshlutfall útsvars hjá sveitarfélögum hækka um 1,20% og tekjuskattshlutföll ríkisins lækka á móti í hverju þrepi um samsvarandi hlutfall.

 Í 5. tölulið 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt er kveðið á um að fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns, þ.e. mörkin milli skattþrepa, skulu taka breytingum í upphafi hvers árs í réttu hlutfalli við hækkun launavísitölu á undangengnu tólf mánaða tímabili. Launavísitala nóvembermánaðar (birt 20. desember sl.) liggur nú fyrir og er hækkun hennar á tólf mánaða tímabili 4,7%.

 Staðgreiðsluhlutfall ársins 2011

Lögum samkvæmt auglýsir fjármálaráðuneytið árlega staðgreiðsluhlutfall opinberra gjalda fyrir komandi ár. Staðgreiðsluhlutfall, er samtala af tekjuskatthlutfalli samkvæmt lögum um tekjuskatt, og meðalhlutfalli útsvars samkvæmt ákvörðunum sveitarfélaga á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Tekjuskattur er lagður á í þremur þrepum eins og áður. Þrepin skiptast þannig að af fyrstu 2.512.800 kr. árstekjum einstaklings (þ.e. 209.400 kr. á mánuði) er reiknaður 22,9% skattur. Af næstu 5.653.800 kr. (471.150 kr. á mánuði) er reiknaður 25,8% skattur og síðan í þriðja þrepi 31,8% skattur af árstekjum umfram 8.166.600 kr. (680.550 kr. á mánuði) hjá einstaklingi. Sem fyrr segir hækka tekjuviðmiðunarmörkin um 4,7% milli ára í samræmi við tólf mánaða hækkun launavísitölu.

Meðalútsvar á árinu 2011 verður samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga í 14,41% í stað 13,12% á árinu 2010. Staðgreiðsluhlutfall ársins 2011 verður samkvæmt því þríþætt eftir fjárhæð tekna, þ.e. 37,31% á tekjur í fyrsta þrepi, 40,21% á tekjur í öðru þrepi og síðan 46,21% á tekjur í þriðja þrepi.  

Sveitarfélögin geta samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga ákveðið útsvar á bilinu 12,44% til 14,48% í kjölfar nýsamþykktar tilfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga sem kemur til framkvæmda í byrjun árs 2011. Af 76 sveitarfélögum leggja 66 á hámarksútsvar, þar af nýtir eitt þeirra sérstakt 5% álag sem þýðir að útsvarshlutfallið verður 15,14%. Tvö sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar. Öll sveitarfélög hækka útsvarshlutfallið frá því sem var á árinu 2010 enda hefur bæði lágmarkið og hámarkið hækkað um 1,20%. Flest þeirra hækka um 1,20%, vegna tilfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga, en sjö sveitarfélög hækka umfram það hlutfall. Ekkert sveitarfélag lækkar útsvarshlutfallið.

Heimilt verður að skattleggja hluta tekna maka í miðþrepi í stað efsta þreps hafi tekjulægri makinn ekki nýtt miðþrepið að fullu, þó að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þegar sýnt þykir að heimild til slíkrar millifærslu hafi skapast geta samskattaðir aðilar óskað eftir endurreikningi á þeirri staðgreiðslu sem innt hefur verið af hendi og jafnframt endurgreiðslu hennar reynist staðgreiðslan of há. Slík endurgreiðsla getur þó ekki komið til fyrr en á síðasta ársfjórðungi og aldrei numið lægri fjárhæð en 50 þ.kr. eða hærri fjárhæð en 100 þ.kr.

Persónuafsláttur og skattleysismörk

Persónuafsláttur hvers einstaklings verður óbreyttur. Hann verður 530.466 krónur fyrir árið í heild, eða 44.205 krónur að meðaltali á mánuði.

Skattleysismörk, sem eru tæplega 124 þ.kr. á mánuði á árinu 2010 verða nánast þau sömu á mánuði frá og með 1. janúar 2011 (að teknu tilliti til 4% lífeyrissjóðsiðgjalds). Lækkunin er einungis 0,24% eða 298 krónur.

Nánari upplýsingar veitir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, [email protected], gsm; 824-6743

Reykjavík, 22. desember 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta