Uppgjör framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 2010
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur jafnframt samþykkt tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá 17. desember síðastliðinn um endurskoðun og uppgjör eftirfarandi framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árinu 2010.
Tekjujöfnunarframlög 2010
Farið hefur fram endurskoðun á útreikningi og úthlutun tekjujöfnunarframlaga fyrir árið 2010, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 113/2003. Við endurskoðunina var tekið mið af endanlegum útsvarsstofni sveitarfélaga vegna tekna ársins 2009.
Heildarúthlutun tekjujöfnunarframlaga í ár nemur rúmlega 1.222 m.kr. Til greiðslu í október komu rúmlega 931 milljón króna. Eftirstöðvar framlaganna að fjárhæð 291 milljón koma til greiðslu í dag.
Útgjaldajöfnunarframlög 2010
Farið hefur fram endurskoðun á útreikningi og úthlutun útgjaldajöfnunarframlaga fyrir árið 2010, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 113/2003. Við endurskoðunina var tekið mið af leiðréttum hámarkstekjum á íbúa í hverju sveitarfélagi og íbúafjölda í sveitarfélögum 1. desember 2009.
Heildarúthlutun útgjaldajöfnunarframlaga í ár nemur 4.000 milljónum króna. Til greiðslu á árinu hafa komið 3.292 milljónir. Eftirstöðvar framlaganna að fjárhæð 708 milljónir koma til greiðslu milli jóla og nýars.
Aukaframlag 2010
Farið hefur fram endurskoðun á útreikningi og úthlutun 1.000 milljóna króna aukaframlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árinu 2010.
Úthlutun framlagsins byggir á reglum, nr. 815/2010, sem settar voru af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Aukaframlaginu er ætlað að bæta rekstrarstöðu sveitarfélaga á árinu.
Við útreikning framlags er tekið mið af íbúaþróun og þróun heildartekna í sveitarfélögum á tilteknu árabili, lágum meðaltekjum, íþyngjandi skuldum og útgjaldaþörf fjölkjarna sveitarfélaga. Við ákvörðun um úthlutun framlagsins er m.a. tekið mið af ársreikningum sveitarfélaganna fyrir árið 2009.
Aukaframlagið er greitt sveitarfélögum í tvennu lagi. Í október komu 750 milljónir króna til greiðslu. Uppgjörsgreiðsla framlagsins að fjárhæð 250 milljónir fer fram í dag.