Árangursstjórnunarsamningar undirritaðir
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og forstöðumenn átta stofnana ráðuneytisins undirrituðu nýverið árangursstjórnunarsamninga milli umhverfisráðuneytisins og stofnana þess. Samningarnir festa í sessi samskiptaferli milli ráðuneytisins og stofnananna og eru grundvöllur áætlanagerðar, stefnumótunar og árangursmats. Markmiðið með gerð samninganna er að efla og formfesta samstarf ráðuneytisins og stofnana þess og auka gæði í starfi þeirra.
Samkvæmt samningnum eiga stofnanirnar meðal annars að gera rekstraráætlanir og verkefnaáætlanir þar sem tiltekin markmið og mælikvarðar eru settir fram. Þá eiga stofnanirnar í upphafi hvers árs að skila ráðuneytinu niðurstöðum áætlana liðins árs og upplýsingum um hvernig og hvort settum markmiðum var náð.
Í samningunum er lögð sérstök áhersla á að jafna stöðu kynjanna í allri starfsemi stofnananna.
Stefnt er að því á fyrstu vikum næsta árs að umhverfisráðuneytið ljúki við gerð árangursstjórnunarsamninga við þær fjórar stofnanir ráðuneytisins sem út af standa.