Nr. 81/2010 - Nýjar starfsreglur fyrir AVS- rannsóknasjóð í sjávarútvegi
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur staðfest reglur um AVS, rannsóknasjóð í sjávarútvegi. AVS (Aukið Virði Sjávarfangs)- rannsóknasjóður veitir styrki til rannsóknaverkefna, sem auka verðmæti sjávarfangs. Styrkir eru veittir til verkefna sem taka á öllum þáttum sjávarútvegs og fiskeldis. Styrkir AVS rannsóknasjóðs eru fyrst og fremst til hagnýtra rannsókna og ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnunum.
Í ársskýrslu sjóðsins fyrir árið 2010 kemur fram að verkefnisstyrkir séu komnir á sjötta hundraðið frá stofnun sjóðsins og hefur sjóðurinn lagt til þessara verkefna tæpa tvo milljarða króna, annað eins og gott betur kemur frá styrkþegum, svo AVS hefur stuðlað að rannsóknum og þróun í íslenskum sjávarútvegi fyrir um fjóra milljarða króna, sem ætla má að svari til ríflega 400 ársverka. Þar að auki eru mörg verkefnin að skila verulegum og varanlegum verðmætum svo sem í framleiðslu og sölu nýrra afurða, bættri nýtingu og auknum gæðum. Verkefni AVS sjóðsins eru mjög mörg og fjölbreytt og langflest unnin í nánu samstarfi við greinina eða að frumkvæði hennar. Sjá nánar á avs.is.
Hinar nýju reglur marka þann meginramma sem stjórn sjóðsins er ætlað að vinna eftir og renna styrkari stoðum undir starfsemi hans.
Ráðstöfunarfé AVS var á árinu 2010 325 milljónir sem kemur af ríkisframlagi og leigugjaldi fyrir aflamark á skötusel.
Stjórn AVS skipa nú Pétur Bjarnason, formaður, dr. Ágústa Guðmundsdóttir, Friðrik Jón Arngrímsson, Hólmgeir Jónsson, Jóhanna María Einarsdóttir, Lárus Ægir Guðmundsson og dr. Jónas Jónasson.
Samkvæmt hinum nýju reglum er sjóðurinn nú með aðsetur á Sauðárkróki en hann var áður vistaður hjá Matís í Reykjavík. Með flutningi hans er treyst enn betur framtíðarstaða og hlutverk sjóðsins og bein tengsl hans við sjávarútveginn sem eru svo mikilvæg.