Kynning á nýju velferðarráðuneyti
Velferðarráðuneytið sem tekur til starfa 1. janúar 2011 þegar heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið sameinast var kynnt á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Á fundinum var einnig kynnt nýtt innanríkisráðuneyti sem verður til við samruna dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kynnti sameiningu ráðuneytanna ásamt Guðbjarti Hannessyni sem verður velferðarráðherra og Ögmundi Jónassyni sem verður innanríkisráðherra. Jóhanna sagði að markmið sameiningarinnar væru að einfalda stjórnsýsluna, gera hana skilvirkari og hagkvæmari en bæta um leið þjónustuna.
Skipulag velferðarráðuneytisins
Guðbjartur Hannesson er velferðarráðherra og aðstoðarmaður hans er Anna Sigrún Baldursdóttir. Ráðuneytisstjóri er Anna Lilja Gunnarsdóttir sem var skipuð í embættið 18. nóvember 2010 í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögum um breytingu á lögum um Stjórnarráðið og tók þátt í undirbúningi að stofnun nýs ráðuneytis.
Skipurit velferðarráðuneytisins var staðfest 10. desember 2010. Öllum starfsmönnum ráðuneytanna tveggja var boðið starf hjá velferðarráðuneytinu og eru starfsmenn þess um 95 talsins.
Verkefni velferðarráðuneytisins varða velferðar- og fjölskyldumál, heilbrigðisþjónustu, húsnæðismál, vinnumarkaðsmál og jafnréttismál.
Skrifstofur velferðarráðuneytisins eru átta; skrifstofa yfirstjórnar, fimm fagskrifstofur og tvær stoðskrifstofur.
- Skrifstofa yfirstjórnar
- Skrifstofa lífskjara og vinnumarkaðar
- Skrifstofa greiningar og hagmála
- Skrifstofa velferðarþjónustu
- Skrifstofa gæða og forvarna
- Skrifstofa réttindaverndar
- Skrifstofa fjárlaga
- Skrifstofa rekstrar og innri þjónustu
Stór verkefni framundan í nýju velferðarráðuneyti
Samkvæmt fjárlögum ársins 2011 verða útgjöld velferðarráðuneytisins 48% af útgjöldum A-hluta ríkissjóðs án vaxtagjalda. Að teknu tilliti til vaxtagjalda eru útgjöldin 41% eða 209,4 milljarðar króna. Almannatryggingar eru stærsti útgjaldaliður ráðuneytisins, um 41% af heildarútgjöldum þess, sjúkrahús- og sjúkraþjónusta um 18% og útgjöld til vinnumála 16,7%.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir stór verkefni framundan í nýju velferðarráðuneyti, enda snúist velferðarmálin um þætti sem varða daglegt líf landsmanna á öllum aldursskeiðum.
„Vegna efnahagserfiðleika þjóðarinnar höfum við úr minni fjármunum að spila en áður. Því er mikilvægara en nokkru sinni að nýta þá vel, gæta aðhalds og útsjónarsemi á öllum sviðum og reyna að fá sem allra mest fyrir hverja krónu.
Ég sé margvísleg tækifæri felast í því að sameina velferðarmálin í einu ráðuneyti. Með sameiningunni verður til öflugt ráðuneyti, mannauðurinn nýtist betur og þannig verðum við betur í stakk búin til að takast á við framtíðina.
Undir velferðarráðuneytið heyra rúmlega 20 stofnanir sem sumar hverjar sinna verkefnum sem eiga margt sameiginlegt og skarast jafnvel að einhverju leyti. Það er nokkuð víst að með aukinni samvinnu stofnana og í einhverjum tilvikum sameiningu þeirra verði unnt að auka skilvirkni, bæta þjónustu og ná fram hagræðingu og sparnaði. Endurskoðun á verkefnum og skipulagi stofnana er eitt af stóru verkefnunum framundan. Að baki er stór áfangi sem fólst í flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaganna 1. janúar 2011. Næsta skref í flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga snýr að málefnum aldraðra og markmiðið er að sú tilfærsla geti orðið að veruleika árið 2012.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir því að ábyrgð á heimahjúkrun yrði flutt til félags- og tryggingamálaráðuneytisins, enda horft til þess hve sú þjónusta er mikilvægur hluti þjónustu við aldraða. Hjá Reykjavíkurborg hefur félagsleg þjónusta og heimahjúkrun verið samþætt og er nú á hendi sveitarfélagsins. Þetta er sú leið sem ég tel að við eigum að fara á landsvísu. Með því móti eflast sveitarfélögin enn frekar og geta þeirra til að sinna samþættri velferðarþjónustu við íbúa sína eykst enn frekar.
Stofnun velferðarráðuneytisins markar tímamót í sögu Stjórnarráðsins og það er einlæg von mín að þau tímamót skili landsmönnum þeim ávinningi sem að er stefnt með skilvirkari stjórnsýslu og bættri þjónustu á öllum sviðum velferðarmála.“
Staðsetning velferðarráðuneytisins
Til að byrja með verður starfsemi velferðarráðuneytisins á tveimur stöðum, þ.e. í Vegmúla 3 þar sem heilbrigðisráðuneytið hefur starfað og í Hafnarhúsinu, Tryggvagötu 17, þar sem félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur verið til húsa. Framtíðarhúsnæði velferðarráðuneytisins verður í Hafnarhúsinu og er áætlað að öll starfsemi ráðuneytisins verði komin þangað í apríl næstkomandi.
Símanúmer, netfang og vefsíða velferðarráðuneytisins frá 1. janúar 2011:
- Aðalnúmer velferðarráðuneytisins er: 545 8100. Bréfasími er: 551 9165
- Erindi send velferðarráðuneytinu í tölvupósti skal senda á netfangið: [email protected]
- Bréfpóstur til ráðuneytisins skal merktur: Velferðarráðuneytið, Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
- Heimasíða velferðarráðuneytisins er: www.velferdarraduneyti.is