Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2011 Innviðaráðuneytið

Fundað um veggjöld og framkvæmdir á suðvesturhorni landsins

Ögmundur Jónasson efndi í dag til fundar með sveitarstjórnarmönnum á Suðurlandi og Reykjanesi til að ræða um framkvæmdir á suðvesturhorni landsins og hugsanleg veggjöld. Fundinn sátu einnig þingmenn Suðurkjördæmis og samgöngunefnd Alþingis.

Fundur um veggjaldamál 6. janúar 2011
Fundur um veggjaldamál 6. janúar 2011

Ögmundur Jónasson efndi í dag til fundar með sveitarstjórnarmönnum á Suðurlandi og Reykjanesi til að ræða um framkvæmdir á suðvesturhorni landsins og hugsanleg veggjöld. Fundinn sátu einnig þingmenn Suðurkjördæmis og samgöngunefnd Alþingis.

Tilefni fundarins er meðal annars ósk frá Samtökum sveitarfélaga á Suðurlandi um fund með ráðherra vegna hugsanlegra veggjalda sem tekin yrðu upp í tengslum við breikkun Suðurlandsvegar. Ákveðið var að útvíkka fundinn og bjóða sveitarstjórnarmönnum á Reykjanesi að sitja fundinn svo og alþingismönnum.

Fundur um veggjaldamál 6. janúar 2011

Ögmundur Jónasson fór í upphafi fundar yfir ákvarðanir samgönguyfirvalda og Alþingis um að fjármagna tilteknar vegaframkvæmdir samgönguáætlunar með sérstökum hætti sem fram komu fyrst í samgönguáætlun fyrir árin 2007 til 2010. Sagði ráðherra að stjórnvöld stæðu frammi fyrir því að hafa úr takmörkuðum fjármunum að spila til verkefna og því hafi verið leitað annarra leiða meðal annars til að fjármagna samgönguframkvæmdir. Alþingi hefði þannig heimilað stofnun félaga um tilteknar framkvæmdir sem fjármagnaðar yrðu með sérstökum hætti og lán greidd með veggjöldum.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri rakti síðan gang mála varðandi ákvarðanir síðustu missera og fyrirkomulag á breikkun Suðurlandsvegar. Einnig fjallaði hann um veggjöld og hvaða leiðir fara mætti í þeim efnum.

Í framhaldinu viðruðu bæði sveitarstjórnarmenn og þingmenn sjónarmið sín en nokkrar sveitarstjórnir á Suðurlandi og Reykjanesi hafa andmælt hugmyndum um veggjöld og komu þau sjónarmið fram í máli þeirra á fundinum.

Engar ákvarðanir voru teknar á fundinum aðrar en þær að nauðsynlegt væri að ræða málið frekar og boðaði ráðherra að hann myndi kalla til annars fundar á næstunni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta