Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra óskar eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur farið þess á leit við Ríkisendurskoðun að fram fari stjórnsýsluúttekt á afskiptum ráðuneytisins, Umhverfisstofnunar, sveitarfélaga og annarra aðila af sorpbrennslustöðvum sem fengu starfsleyfi fyrir 28. desember 2002. Er þetta gert í ljósi umræðu um díoxínmengun frá sorpbrennslustöðinni Funa á Ísafirði að undanförnu og mögulega tengingu hennar við mælingar á díoxínmengun í mjólkurafurðum frá býli í nágrenni stöðvarinnar.

Markmið stjórnsýsluúttektarinnar er að leiða í ljós hvernig staðið var að undirbúningi og framkvæmd málsins og hvort hagsmuna almennings og umhverfis hafi verið gætt í þessu ferli. Jafnframt að leggja fram tillögur um úrbætur í stjórnsýslunni og eftir atvikum á lagaumhverfi stjórnvalda ef ástæða er talin til.

Lögð er áhersla á að eftirfarandi atriði verði sérstaklega skoðuð í stjórnsýsluúttektinni:

  • Á hvaða forsendum var óskað eftir undanþágu fyrir starfandi sorpbrennslustöðvar hér á landi og á hverju byggðu íslensk stjórnvöld ósk þar að lútandi sbr. ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 57/2003?
  • Hvernig var skilyrðum undanþágunnar framfylgt af hálfu íslenskra stjórnvalda?
  • Viðbrögð stjórnsýslunnar, til að mynda umhverfisráðuneytisins, Umhverfisstofnunar, sveitarfélaga, heilbrigðiseftirlitsins og fleiri aðila eftir atvikum, þegar mælingar lágu fyrir árið 2008?
  • Höfðu stjórnvöld upplýsingaskyldu gagnvart almenningi til að upplýsa um mælingarnar sem lágu fyrir 2008, ef svo er hvernig var þeim skyldum fullnægt?
  • Voru hagsmunir almennings og umhverfis látnir víkja fyrir hagsmunum rekstraraðila sorpbrennslustöðvarinnar þegar mælingar lágu fyrir árið 2008?

Sorpbrennslu hefur nú þegar verið hætt í Funa og Umhverfisstofnun hefur lagt til að öðrum sorpbrennslum verði gert að uppfylla mengunarvarnarkröfur samkvæmt tilskipun 2000/76/EB um brennslu úrgangs innan tveggja ára. Umhverfisráðuneytið hefur þær tillögur nú til umfjöllunar. Þá hefur komið fram opinberlega að sorpbrennslan í Vestmannaeyjum stefnir að því að auka flokkun á úrgangi sem dregur úr brennslu og mengun. Til slíkra aðgerða hefur þegar verið gripið á Kirkjubæjarklaustri. Þá hefur Umhverfisstofnun krafið sorpbrennslutöðina á Húsavík um tímasetta áætlun um úrbætur í mengunarmálum.

Matvælastofnun rannsakar nú díoxín í sauðfjárafurðum í nágrenni sorpbrennslustöðvarinnar og einnig hafa verið tekin ný sýni úr mjólk og fóðurrúllum frá Engidal í Skutulsfirði þar sem sem díoxín mældist yfir mörkum í mjólk fyrir áramót. Mjólkursýni voru jafnframt tekin frá býlum í nágrenninu. Niðurstaðna úr sýnatöku er að vænta í fyrrihluta febrúar og mun stjórnskipuð samstarfsnefnd um sóttvarnir í kjölfarið fara yfir niðurstöður og taka í framhaldinu ákvörðun um frekari rannsóknir.  Nefndina skipa sóttvarnarlæknir og fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Geislavörnum ríkisins.

Þá hefur umhverfisnefnd Alþingis falið Ólínu Þorvarðardóttur þingmanni að skoða lagaumgjörð sorpbrennslu hér á landi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta