Rýnifundi um mennta- og menningarmál lokið
Rýnifundi um 26. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið, mennta- og menningarmál, lauk í Brussel í dag. Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla. Fyrir íslenska hópnum fór Harald Aspelund, formaður samningahóps um EES II málefni en 26. kafli er hluti af EES-samningnum. Ekki var rætt um undanþágur, aðlaganir eða sérlausnir, enda tekur Ísland nú þegar þátt í samstarfi og áætlunum Evrópusambandsins á sviði menntamála, menningarmála og æskulýðsmála á grundvelli EES-samningsins.
ESB hefur ekki lögsögu yfir mennta- eða menningarmálum aðildarríkjanna en hefur heimildir til að samhæfa og efna til verkefna, sem aðildarríkin koma sér saman um að séu til bóta fyrir málaflokkinn.
Með stækkun ESB og aukinni pólitískri áherslu á menntamál hafa möguleikar EFTA/EES-ríkjanna til þátttöku í stefnumörkun minnkað að undanförnu. Ef til aðildar kæmi yrði aðgengi að samstarfi, stefnumótun og ákvarðanatöku meira en núna, skólagjöld að skólum í Bretlandi yrðu í samræmi við skólagjöld ESB-ríkisborgara og auðveldara yrði að fá sérfræðiaðstoð og njóta samstarfs við ýmsar stofnanir.
Greinargerð samningahópsins sem fjallar um mennta- og menningarmál (EES II) hefur verið birt á heimasíðunni esb.utn.is en í henni er að finna nánari útlistun á viðfangsefni kaflans. Hægt er að opna greinargerðina með því að smella hér