Rýnifundi um rannsóknir og vísindi lokið í Brussel
Rýnifundi um 25. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið, rannsóknir og vísindi, lauk í Brussel í dag. Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla. Fyrir íslenska hópnum fór Harald Aspelund, formaður samningahóps um EES II málefni en 25. kafli er hluti af EES-samningnum. Ekki var rætt um undanþágur, aðlaganir eða sérlausnir, enda tengist Ísland rammaáætlunum ESB á þessu sviði nú þegar með aðild sinni að EES-samningnum.
Möguleikar EFTA/EES-ríkjanna til áhrifa á stefnumörkun í vísinda- og rannsóknamálum á vegum ESB hafa farið minnkandi í tengslum stækkun sambandsins og fleiri samstarfsaðila á þessu sviði. Gera má ráð fyrir að aðstæður muni breytast mikið í þessu efni ef til aðildar kæmi.
Greinargerð samningahópsins sem fjallar um rannsóknir og vísindi (EES II) hefur verið birt á heimasíðunni esb.utn.is en í henni er að finna nánari útlistun á viðfangsefni kaflans. Hægt er að opna greinargerðina með því að smella hér