Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2011 Innviðaráðuneytið

Umsagnarfrestur um drög að frumvarpi til sveitarstjórnarlaga til 23. janúar

Umsagnarfrestur um drög að frumvarpi til sveitarstjórnarlaga rennur út 23. janúar næstkomandi. Umsagnir skal senda á netfangið [email protected]. Starfshópur skilaði ráðherra frumvarpsdrögunum nýlega og er þar um heildarendurskoðun laganna að ræða.

Fram kemur í skilabréfi starfshópsins til ráðherra að hann gerir ekki tillögu um grundvallarbreytingar á sveitarstjórnarlögunum en þó komi þar fram mikilvæg nýmæli sem viðbúið sé að kalli á miklar umræður í samfélaginu og á Alþingi. Þau helstu lúta að fjármálum sveitarfélaga, samvinnu sveitarfélaga og almennu stjórnsýslueftirliti með sveitarfélögum, enda er mikil og brýn þörf á að þessum ákvæðum verði breytt. Aðrar mikilvægar tillögur koma hins vegar einnig fram í drögunum, bæði hvað varðar réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna og möguleika íbúanna til aðgangs að upplýsingum um málefni sveitarfélagsins og til að hafa áhrif á stjórnun þeirra.

Starfshópurinn telur að að þær lagabreytingar sem lagðar eru til vegna fjármála sveitarfélaga og um aukinn aga í þeim efnum eigi á hættu að missa marks ef ekki er samhliða unnið að nauðsynlegri endurskipulagningu á stjórnsýslu ríkisins þannig að hún sé í stakk búin til að vinna reglubundið úr upplýsingum um málefni sveitarfélaga og til að leggja rétt mat á stöðu þeirra og verkefni hverju sinni. Um þann þátt er ekki sérstaklega fjallað í frumvarpsdrögunum.

Starfshópurinn leggur til að frumvarpsdrögin verði ítarlega kynnt helstu hagsmunaaðilum og almenningi áður en frumvarp verður lagt fram á Alþingi. Drögin fela í sér tillögu að mikilvægum lagabálki fyrir íslenska stjórnsýslu og í þeim er tæpt á fjölmörgum atriðum er varða stöðu almennings og starfsumhverfi sveitarfélaganna. Vakin er athygli á því að umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpsdrögunum frá því þau voru kynnt í september bæði á vef ráðuneytisins og fram fór umræða og kynning á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Einnig hafði starfshópurinn samráð við samráðsnefnd um efnahagsmál vegna tillagna um fjármálareglur og fleira.

Kristján L. Möller, þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skipaði í janúar 2010 starfshóp um endurskoðun á sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998. Í hópnum sátu: Fulltrúar ráðherra eru Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, Drífa Hjartardóttir, fyrrverandi þingmaður, og Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Hrunamannahrepps. Tveir eru fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga: Björk Vilhelmsdóttir og Guðjón Bragason. Jafnframt skipaði hann verkefnisstjóra, Trausta Fannar Valsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, sem vinna skyldi að endurskoðuninni með stuðningi frá nefndum starfshópi. Þá hefur Hjördís Stefánsdóttir, lögfræðingur á sveitarstjórnarskrifstofu ráðuneytisins, starfað með hópnum. Frumvarpsdrögin verða kynnt ráðherra á næstu dögum ásamt skýringum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta