Ný lög heimila fullgildingu Lúganósamningsins
Alþingi samþykkti í gær, 20. janúar 2011, lög um Lúganósamninginn um dómsvald og viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum. Með lögunum er veitt heimild til þess að fullgilda samninginn, sem undirritaður var af af hálfu íslenska ríkisins 30. október 2007.
Alþingi samþykkti í gær, 20. janúar 2011, lög um Lúganósamninginn um dómsvald og viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum. Með lögunum er veitt heimild til þess að fullgilda samninginn, sem undirritaður var af af hálfu íslenska ríkisins 30. október 2007 og kemur í stað eldri Lúganósamnings sem undirritaður var 16. september 1988 og staðfestur var með lögum nr. 68/1995. Með lögunum er ákvæðum samningsins og þeirra þriggja bókana sem honum fylgja ennfremur veitt gildi hér á landi sem lög.
Helsta breytingin er að í nýjum samningi er Evrópusambandið, sem stofnun, nú aðili að Lúganósamningnum í stað einstakra aðildarríkja áður. Samningurinn nú tekur því til ellefu sambandsríkja sem ekki voru aðilar að samningnum frá 1988. Með hinum nýja Lúganósamningi er stefnt að frekari samvinnu milli samningsríkjanna á sviði dómsmála í alþjóðlegum einkamálum og eru meginreglur eldri samningsins um gagnkvæma viðurkenningu og fullnustu dóma sem kveðnir eru upp í ríkjum annarra samningsaðila treystar ennfrekar.
Önnur ákvæði Lúganósamningsins, en heimildin til fullgildingar, taka gildi þegar hinn endurskoðaði samningur öðlast gildi gagnvart Íslandi, sem er fyrsta dag þriðja mánaðar eftir að Ísland hefur afhent fullgildingarskjal sitt.