Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2011 Matvælaráðuneytið

Gengið til samninga um styttri nýtingarrétt orkuauðlinda

Á fundi ríkisstjórnarinnar var ákveðið að fela iðnaðarráðherra í samráði við fjármálaráðherra að taka þegar í stað upp viðræður við HS Orku hf., eigendur félagsins og sveitarfélögin sem eigendur auðlindanna og nýtingarréttar þeirra um styttingu leigutíma nýtingarréttar til samræmis við stefnumörkun stjórnvalda á því sviði. Að auki er lögð áhersla á að tryggja ríkinu ótímabundinn forkaupsrétt á hlutum Magma Energy Sweden AB í HS Orku hf. Jafnframt er lögð áhersla á að samið verði um kaup opinberra aðila og innlendra aðila eins og lífeyrissjóða á hlutum í HS Orku hf. með frekari kauprétti í framtíðinni.

Jafnframt var ákveðið að ganga til samninga við Reykjanesbæ um kaup ríkisins á jarðauðlindum í eigu sveitarfélagsins.

Iðnaðarráðherra mun á vorþingi leggja fram frumvarp til laga þar sem hámarksleigutími á nýtingarrétti vatns- og orkuauðlinda verður styttur úr þeim 65 árum sem skilgreind voru með lögum nr. 58/2008 sem hámark og ákvarðaður þannig að sem best jafnvægi náist milli krafna um eðlilega arðsemi fjárfestinga, hvata til ábyrgrar umgengni um auðlind og mannvirki og sveigjanleika í orkunýtingu.

Samhliða þessu mun undirbúningur hefjast að mótun heildstæðrar auðlindastefnu með skilgreiningu á lykilmarkmiðum hennar og þeim almannahagsmunum sem hún á að tryggja.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta