Ný reglugerð um vegabréfsáritanir
Innanríkisráðherra hefur sett nýja reglugerð um vegabréfsáritanir með ítarlegum form- og efnisreglum m.a. varðandi umsóknir um vegabréfsáritanir og útgáfu þeirra.
Innanríkisráðherra hefur sett nýja reglugerð um vegabréfsáritanir með ítarlegum form- og efnisreglum m.a. varðandi umsóknir um vegabréfsáritanir og útgáfu þeirra. Með reglugerðinni er innleidd svokölluð Visa Code-reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins sem ætlað er að tryggja jafnræði þeirra einstaklinga sem sækja um vegabréfsáritun til ríkja er taka þátt í Schengen-samstarfinu og samræma þær reglur sem gilda innan aðildarríkjanna.
Í nýju reglugerðinni er vikið að því hvenær íslensk stjórnvöld hafa heimild til að annast meðferð umsóknar um samræmda Schengen-vegabréfsáritun og kveðið er á um verklagsreglur og skilyrði fyrir útgáfu vegabréfsáritana af hálfu Íslands fyrir þá sem fara um Schengen-svæðið eða hyggjast dvelja þar í allt að þrjá mánuði. Þá er fjallað um útgáfu vegabréfsáritana á landamærum, afgreiðslufrest stjórnvalda, umsóknargjald, ástæður synjana á umsóknum, breytingu og afturköllun á vegabréfsáritun o.fl. Meðal nýmæla í reglugerðinni má nefna að opnað er fyrir þann möguleika að gestgjafi hér á landi ábyrgist framfærslu umsækjanda um vegabréfsáritun á meðan á fyrirhugaðri dvöl stendur.
Reglugerðinni fylgja 11 viðaukar þar sem m.a. er að finna sýnishorn af stöðluðu umsóknareyðublaði um vegabréfsáritun, stöðluðu eyðublaði til notkunar við synjun á vegabréfsáritun, lista yfir fylgiskjöl, lista yfir ríkisborgara ríkja sem þurfa að hafa vegabréfsáritun til að koma til Íslands og inn á Schengen-svæðið, lista yfir ríkisborgara ríkja sem eru undanþegin vegabréfsáritun auk lista yfir ríki og staði þar sem sækja má um vegabréfsáritun til Íslands.
Reglugerðin öðlast gildi í dag, 25. janúar 2011. Sjá hér á vef Stjórnartíðinda.