Úthlutun aflaheimilda fyrir árið 2011 úr stofni Austur-Atlantshafs bláuggatúnfisks.
Auglýsing
Úthlutun aflaheimilda fyrir árið 2011 úr stofni austur-Atlantshafs bláuggatúnfisks
Ísland er aðili að Atlantshafs túnfiskveiðiráðinu (ICCAT). Samkvæmt stjórnunar-ráðstöfunum ráðsins sem Ísland hefur samþykkt, koma í hlut Íslands aflaheimildir fyrir árið 2011 sem nema 78 tonnum af bláuggatúnfiski, með fyrirvara um breytingar. Um er að ræða veiðiheimildir samkvæmt samþykktum ICCAT úr stofni Austur-Atlantshafs bláuggatúnfisks (e. bluefin tuna in the East-Atlantic and the Mediterranean). Nánari upplýsingar um samþykktir ráðsins er að finna vefsíðu ICCAT (http://www.iccat.int/)
Bláuggatúnfiskveiðar er einungis heimilt að stunda á línu og eru bundnar við tímabilið 1. águst til 31. desember 2011 á veiðisvæðinu norðan 42°00,00´ N milli 10°00,00´ V og 45°00,00´ V.
Útgerðir sem hafa áhuga á að taka þátt í veiðum á bláuggatúnfiski á árinu 2011 skulu sækja um veiðiheimildir til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins fyrir 14. febrúar 2011.
Í umsókninni skal tilgreina áætlun um veiðarnar, m.a. búnað skips, löndunarhafnir og ráðstöfun afla. Ráðuneytið áskilur sér rétt til að hafna umsóknum sé ljóst að viðkomandi skip hafi ekki búnað til veiðanna eða að fyrirséð sé að það muni af öðrum ástæðum ekki stunda þær. Að öðru leyti skal hlutkesti skera úr um rétt umsækjenda til leyfis til bláuggatúnfiskveiða.
Samkvæmt reglum ICCAT er aðeins heimilt að úthluta einu íslensku skipi veiðileyfi árið 2011.
Vakin er athygli á að Ísland er bundið af samþykktum ICCAT um veiðarnar og að eftir að leyfi er veitt er óheimilt að endurúthluta því á árinu 2011 til annars skips nema skip hafi farist, eða vélarbilun valdi því að það geti ekki haldið til veiða. Aflaheimildir má ekki flytja milli ára.