Reglur um sölu ríkisins á eignarhlutum í fyrirtækjum
Ráðherranefnd um efnahagsmál samþykkti í gær tillögu forsætisráðherra um að skipaður verði starfshópur þriggja ráðuneyta, forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og efnahags- og viðskiptaráðuneytis, til að yfirfara hvort nægilega sé tryggt í lögum og reglum jafnræði og gagnsæi við sölu á fyrirtækjum eða hlutum í fyrirtækjum í beinni eða óbeinni eigu ríkisins og leggi fram tillögur og ábendingar um það að hverju skuli gætt. Hefur umboðsmanni Alþingis verið greint frá þessari ákvörðun en hann hafði í bréfi frá 31. desember sl. óskað eftir því að upplýst yrði hvort efni stæðu til þess, að mati forsætisráðherra, að setja nánari ákvæði í lög um sölu ríkisins á eignarhlutum í þeim fyrirtækjum og félögum sem það á eða kann að eignast svo sem um málsmeðferð, sölufyrirkomulag og skilyrði gagnvart kaupendum, sem og að endurskoða verklagsreglur um einkavæðingu ríkisfyrirtækja o.fl.
Samkvæmt tillögu forsætisráðherra mun starfshópurinn skoða:
- verklag bankanna við sölu fyrirtækja og hvort þörf sé á að herða opinbert eftirlit,
- stöðu eftirlitsnefndar vegna niðurfellingar skulda fyrirtækja og aðstöðu hennar til að sinna sínu hlutverki,
- hvort þörf sé á að endurskoða og styrkja reglur um eigendastefnu, en sú vinna er þegar hafin í fjármálaráðuneytinu.
Einnig mun starfshópurinn kanna hvort ástæða sé til að endurskoða reglur sem lífeyrissjóðir starfa eftir til þess að tryggja að sömu grundvallarreglur gildi um ráðstöfun eigna á þeirra vegum.