Viðamikilli upplýsingaöflun lokið um ofbeldi karla gegn konum
Niðurstöður tveggja kannana sem gerðar hafa verið í samræmi við áætlun stjórnvalda um aðgerðir gegn ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum voru kynntar í dag. Önnur fjallar um umfang ofbeldisins og hin um viðbrögð lögreglu við tilkynningum um ofbeldi karla gegn konum.
Í samræmi við áætlun stjórnvalda um aðgerðir gegn ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum var ráðist í gerð sex rannsókna og kannana á umfangi ofbeldis, ýmsum þáttum sem tengjast því hvernig tekið er á slíkum málum og hvaða úrræði eru fyrir hendi. Gerðar voru fjórar kannanir um viðbrögð og úrræði hjá félagsþjónustu, barnavernd, grunnskólum, heilbrigðisþjónustu og félagasamtökum. Niðurstöður þeirra hafa áður verið kynntar og eru skýrslur um þær aðgengilegar á vefsíðu ráðuneytisins.
Niðurstöður rannsóknanna tveggja sem kynntar voru í dag fjalla annars vegar um umfang ofbeldis gegn konum og hins vegar um viðbrögð lögreglu við tilkynningum um ofbeldi karla gegn konum.
Umfang ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum
Í rannsókninni var tekið 3.000 manna slembiúrtak úr þjóðskrá meðal kvenna á aldrinum 18–80 ára á öllu landinu og var svarhlutfallið 73%. Rætt var við konurnar í síma á tímabilinu 22. september–7. desember 2008. Fyrstu niðurstöður könnunarinnar hafa áður verið kynntar. Þá var úrvinnslunni ekki lokið en þær liggja nú fyrir í viðamikilli skýrslu Rannsóknastofnunar Háskóla Íslands í barna- og fjölskylduvernd. Skýrsluhöfundar eru Elísabet Karlsdóttir og Ásdís A. Arnalds.
Helstu niðurstöður:
- Rúm 22% kvennanna sögðust hafa verið beitt ofbeldi í nánu sambandi einhvern tíma frá 16 ára aldri. Þetta jafngildir því að 23–27.000 konur á Íslandi hafi orðið fyrir slíku ofbeldi á lífsleiðinni.
- Um 20% kvennanna sögðu ofbeldið hafa verið líkamlegt.
- Rúm 6% kvennanna sögðu ofbeldið hafa verið kynferðislegt.
- Hlutfallslega fleiri konur sögðust hafa verið beittar ofbeldi af hendi fyrrverandi maka (19%) en núverandi maka (7%).
- Hlutfallslega fleiri konur sem hafa verið beittar ofbeldi eru fráskildar í dag (51%) en þær sem eru giftar (17%) eða hvorki giftar né fráskildar (18%). Þetta skýrist af því að flestar konur sem beittar eru ofbeldi í nánum samböndum skilja eða fara úr þessum ofbeldissamböndum.
- Hjá um 75% svarenda bjuggu börn á heimilinu við síðasta ofbeldisatvik og um 24% kvennanna töldu að börn hefðu orðið vitni að síðasta ofbeldisatviki.
- Milli 1 og 2% kvenna sögðust hafa verið beittar ofbeldi í nánu sambandi undangengna tólf mánuði. Þetta samsvarar því að 1.200–2.300 konur búi við ofbeldi á ári hverju.
Sjaldan kært til lögreglu
Konurnar sem beittar höfðu verið ofbeldi kærðu fæstar til lögreglu (13%) en í 4% tilvika fékk lögreglan upplýsingar um ofbeldið á annan hátt. Af þeim konum sem kærðu voru 65% sátt við hvernig lögreglan tók á málinu en um 35% kvennanna voru ósátt.
Konurnar sem ekki kæra til lögreglu nefna fyrir því ýmsar ástæður. Flestar nefna að þeim hafi fundist atvikið smávægilegt, ekki nógu alvarlegt eða ekki hugsað út í að kæra (44%), um 20% segjast hafa tekist á við þetta sjálf, 9,5% að þeim hafi fundist málið skammarlegt/vandræðalegt eða kennt sjálfu sér um og 7,3% nefna ótta við ofbeldismanninn eða ótta við hefnd.
Niðurstöður rannsóknar á afskiptum og ákvörðunum lögreglu
Síðasta rannsóknin sem gerð var samkvæmt aðgerðaáætlun vegna ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum fólst í því að afla þekkingar á því hver séu afskipti og ákvarðanir lögreglu þegar tilkynningar um ofbeldi karla gegn konum berast lögreglunni. Rætt var við lögreglustjóra eða aðra starfandi lögreglumenn við fimm lögregluembætti landsins, á Akureyri, höfuðborgarsvæðinu, Ísafirði, Suðurlandi og Suðurnesjum. Einnig var rætt við félagsfræðinga hjá ríkislögreglustjóra og lögreglu höfuðborgarsvæðisins og við skólastjóra og kennara við Lögregluskólann. Ingólfur V. Gíslason, dósent við Háskóla Íslands, gerði rannsóknina.
Leitað var svara við sex meginatriðum sem varða fyrirkomulag á skráningu þessara mála, verklag lögreglunnar, sérhæfingu, samvinnu við stofnanir, mat lögreglu á því hvort hún hafi næg úrræði til að fást við ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum og loks mat viðmælenda á kennslu í Lögregluskólanum hvað þessi brot varðar.
Helstu niðurstöður
Í niðurstöðum skýrsluhöfundar kemur fram að skráning og meðferð mála hafi batnað eftir að ríkislögreglustjóri gaf út sérstakar verklagsreglur. Engu að síður sé ekki unnt að nota opinbera afbrotafræði lögreglunnar til að meta umfang vandans eða hvort brotum fjölgi eða fækki. Fram kemur að meiri hluti þeirra ofbeldisbrota sem lögreglan skráir eru minniháttar í lagalegum skilningi og kærur fátíðar. Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur verið byggð upp nokkur sérhæfing í meðferð heimilisofbeldis og kynferðisbrota þar sem sérstök deild sér um málaflokkinn og lögreglumenn eru þjálfaðir sérstaklega. Annars staðar er reynt að sjá til þess að sömu menn sinni sem oftast málum af þessum toga. Að mati viðmælenda hefur þetta gefist vel. Eins kemur fram ánægja þeirra með þá kennslu sem veitt er í Lögregluskólanum um meðferð mála af þessum toga. Skýrsluhöfundur telur ljóst að þau úrræði sem best myndu duga til að ná árangri séu að mestu utan verksviðs lögreglunnar þar sem í flestum tilfellum sé þörf fyrir félagslegar og sálfræðilegar lausnir.
Skýrslan verður birt á vef velferðarráðuneytisins á næstu dögum.