Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2011 Utanríkisráðuneytið

Rýnifundi um landbúnaðarmál lokið

Rýnifundi um 11. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið, landbúnað og dreifbýlisþróun, lauk í Brussel í dag. Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla. Fyrir íslenska hópnum fór Sigurgeir Þorgeirsson, formaður samningahópsins.

Landbúnaðarmál standa utan EES-samningsins og þarf að semja um þau frá grunni. Sameiginleg landbúnaðarstefna ESB byggir á sameiginlegum markaði fyrir landbúnaðarvörur, en engum tollum eða magntakmörkunum er beitt í viðskiptum með landbúnaðarvörur milli aðildarríkjanna. Til að tryggja stöðu landbúnaðar og jafna samkeppnisstöðu bænda er sameiginlegt stuðningskerfi fyrir landbúnað innan ESB, sem skiptist annars vegar í beinar greiðslur til bænda, sem alfarið koma af fjárlögum ESB, og hins vegar stuðning við dreifbýlisþróun sem er fjármagnaður sameiginlega af ESB og hverju aðildarríki.

Á rýnifundunum var regluverk Íslands og Evrópusambandsins borið saman. Lögð var áhersla á sérstöðu íslensks landbúnaðar og mikilvægi hans vegna fæðuöryggis, sjálfbærni og dreifbýlisþróunar. Til að mæta þörfum íslensks landbúnaðar verði nauðsynlegt að leita sérstakra lausna í samningaviðræðunum um aðild Íslands að ESB. 

Á meðal þeirra þátta sem lögð var sérstök áhersla á af Íslands hálfu á rýnifundunum má nefna:

·        Norðlæg lega og náttúruleg sérstaða, m.a. harðbýli og mikið dreifbýli

·        Einföld stjórnsýsla og sveigjanleiki við innleiðingu

·        Stuðningsfyrirkomulag, sérstaklega beingreiðslna, vegna sérstöðu Íslands og   skertrar samkeppnisstöðu

·        Viðbótarheimildir til að styrkja íslenskan landbúnað úr ríkissjóði

·        Mikilvægi þeirrar verndar sem íslenskur landbúnaður nýtur í formi tollverndar.

·        Starfsumhverfi kúabænda og afurðastöðva í mjólkuriðnaði

·        Vernd innlendra búfjárstofna og heilbrigði þeirra

·        Búfjármerkingar og mikilvægi þess að þær taki tillit til íslenskra aðstæðna

Löggjöf Evrópusambandsins um landbúnað og dreifbýlisþróun er umfangsmikil og hefur samningahópurinn unnið fjórar greinargerðir, ásamt almennum inngangi, þar sem ítarlega er gerð grein fyrir öllum þeim atriðum sem áhersla var lögð á af Íslands hálfu.

Greinargerðirnar sem sjá má hér:

Almennur inngangur

A. Beingreiðslur.

B. Sameiginleg viðskiptastefna

C. Sameiginlegur markaður

D. Dreifbýlisþróun

Auk þess fylgir yfirlýsing sem gefin var munnlega á fundinum sem svar við fyrirspurn framkvæmdastjórnar ESB um stjórnsýslu- og lagabreytingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta