Nú ættu samskipti íslenskra ungmenna við grænlenska og færeyska jafnaldra sína að komast á flug!
Með nýlegum breytingum á ferðamálasamningi Íslands, Grænlands og Færeyja gefst nú svigrúm til að styrkja samskipti landanna á sviði skólastarfs, íþrótta og menningar með sérstakri áherslu á börn og ungmenni.
Tilgangurinn er að efla tengslin á milli landanna, auka þekkingu, styrkja samgöngur og að sjálfsögðu að efla ferðamennsku.
Hafi tekist formlegt samstarf við einstaklinga eða hópa í Færeyjum eða Grænlandi er hægt að sækja um ferðastyrk fyrir allt að 20.000 kr. fyrir hvern einstakling. Hér er því komið kjörið tækifæri til að horfa til okkar næstu nágranna þegar fræðsla og menning er annars vegar.
Auglýsing um styrkina mun birtast í lok vikunnar og er gert ráð fyrir að álitlegustu verkefnin verði valin í lok mars.