SagaMedica og íslensk ætihvönn ná miklum markaðsárangri í Kanada - náttúrulega!
Markviss vöruþróun og öflugt markaðsstarf fyrirtækisins SagaMedica hefur skilað þeim árangri að SagaPro nátttúruvaran er nú komin í landsdreifingu í Kanada og jafnframt hefur náðst mjög athyglisverður árangur í Bandaríkjunum. SagaMedica hlaut brúarstyrk úr Tækniþróunarsjóði til markaðssóknarinnar og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Undirbúningur hefur staðið yfir í heilt ár og tvö ný stöðugildi hjá fyrirtækinu má rekja beint til þessarar vinnu. Hjá fyrirtækinu starfa nú átta manns.
Náttúruefninu SagaPro er ætlað að draga úr tíðni næturþvagláta. Varan er unnin úr íslenskri ætihvönn sem sýnt hefur verið að innihaldi lífvirk efni sem geta gagnast til að draga úr fjölda salernisferða á nóttunni, en það er algengt vandamál hjá fólki af báðum kynjum.
Fyrirtækið leggur í allri markaðssetningu mikla áherslu á það sem það kallar Græna gullið, þ.e. að varan sé unnin úr íslensku hráefni, hún byggi á íslensku hugviti og sé alfarið íslensk framleiðsla.
Brúarstyrkur Tækniþróunarsjóðs náði meðal annars til þátttöku á tveimur mikilvægustu vörusýningum í Kanada á þessu sviði. Það þykir erfitt að komast inn á kanadískan náttúruvörumarkað. Kanadísk heilbrigðisyfirvöld gera miklar kröfur um skráningar og engin náttúruvara fer þar á markað án þess að fara í gegnum sérstaka skoðun og skráningarferli. Í þessu ferli öllu hefur það verið mikill styrkur fyrir að vera nú með SagaPro í klínískri rannsókn. En Tækniþróunarsjóður styrkti einmitt rannsóknina síðastliðið vor en þessi rannsókn er fyrsta klíníska rannsóknin sem framkvæmd hefur verið á íslenskri náttúruvöru. Markaðssóknin í Kanada kemur því í beinu framhaldi af klínísku rannsókninni.
Markmið SagaMedica er að SagaPro fari inn sem e.k. múrbrjótur fyrir aðrar vörur fyrirtækisins. Jafnframt er vonast til að sterk staða og ímynd SagaMedica á þessum nýja markaði geti rutt leið leið fyrir aðra íslenska náttúruvöruframleiðendur.