Stuttmyndasamkeppni í tengslum við dag leikskólans 6. febrúar 2011
Dagur leikskólans verður nú haldinn í fjórða sinn. 6. febrúar. Dagurinn markar tímamót í íslenskri leikskólasögu því þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.
Dagur leikskólans verður nú haldinn í fjórða sinn. 6. febrúar. Dagurinn markar ákveðin tímamót í íslenskri leikskólasögu því þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Í tilefni dagsins í ár hefur m.a. verið efnt til stuttmyndasamkeppni meðal leikskóla með þemanu „leikskólinn minn“. Úrslit verða kynnt á sérstakri dagskrá í Bíó Paradís, Hverfisgötu 54 Reykjavík, föstudaginn 4. febrúar kl. 13.00. Þar verða sýndar þær stuttmyndir sem tilnefndar verða til verðlauna.
Það var árið 2008 sem Félag leikskólakennara, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli tóku höndum saman um að þennan dag, 6. febrúar, skyldi unnið að því að vekja sérstaka athygli á leikskólanum sem mennta- og uppeldisstofnun, vekja umræðu um hlutverk hans og starf leikskólakennara og kynna starfið út á við.
Daginn ber að þessu sinni upp á sunnudag en hann verður haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins föstudaginn 4. febrúar n.k.
Í leikskólum hefur dagurinn verið gerður eftirminnilegur á margan hátt á undanförnum árum. Gefin hafa verið út sérstök upplýsingarit, starfsfólk leikskóla, leikskólabörn og foreldrar hafa farið í „meðmælagöngur", foreldrum og velunnurum boðið í morgunmat og kaffi, vasaljós notuð til að varpa ljósi á barnið, haldnar myndlistar- og leiksýningar og mikið sungið eins og venja er í leikskólum. Starfsfólk leikskóla er sammála um að dagurinn sé í alla staði góð tilbreyting og skemmtileg leið til halda á lofti góðu starfi leikskólanna.
Vakin er athygli á að unnt er að fylgjast með umræðu um dag leikskólans á facebook og á vef Félags leikskólakennara er að finna hugmyndabanka um atburði sem haldnir hafa verið á degi leikskólans undanfarin ár.