Skýrsla um þróun efnahagsmála send ESB
Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur sent framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skýrslu um íslensk efnahagsmál til ársins 2013 (Pre-Accession Economic Programme). Skýrslan er hluti af undirbúningi aðildarumsóknar og verður sambærilegri skýrslu skilað árlega á meðan á því ferli stendur. Skýrslan er skrifuð samkvæmt sniðmáti Evrópusambandsins og ætlað að auðvelda umsóknarríkjunum að taka þátt í efnahagssamstarfi sambandsins ef af inngöngu verður.
Skýrslan er í fjórum meginköflum og byggir á þeirri stefnu sem sett hefur verið fram í áætlun um ríkisfjármál til 2013, 20/20 sóknaráætlun og viljayfirlýsingum stjórnvalda til Alþjóðgjaldeyrissjóðsins. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur notið góðrar aðstoðar viðkomandi fagráðuneyta og stofnana við gerð skýrslunnar.
Fyrsti kaflinn setur fram meginþætti efnahagsstefnunnar.
Annar kaflinn fjallar um þjóðhagsspá og efnahagsmál almennt. Þar er fjallað um þróun efnahagsmála síðustu misseri og spá Hagstofunnar og sýn ráðuneytisins til ársins 2013. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur lagt mikla áherslu á að tekið verði af festu á endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja í samræmi við þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa þegar kynnt. Endurskipulagning skulda er forsenda þess að sjálfbær hagvöxtur taki við sér að nýju á spátímabilinu. Af þeim sökum hefur úrlausn skulda einkaaðila verið eitt meginviðfangsefni ráðuneytisins undanfarna mánuði.
Þriðji kaflinn fjallar um fjármál hins opinbera. Stærstur hluti kaflans fjallar um stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum auk þeirra skuldbindinga sem gengist hefur verið undir í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Kaflinn byggir á tölum fjármálaráðuneytisins og stefnu í ríkisfjármálum til ársins 2013. Sérstaklega er rætt um þær útgjalda- og tekjuöflunaraðgerðir sem gripið hefur verið til. Auk þess er fjallað um fjármál sveitarfélaganna og vinnu nefndar um fjármál sveitarfélaga við mótun fjármálareglna. Meginþættir skuldastefnu sem fjármálaráðuneytið hefur kynnt eru einnig settir fram.
Í fjórða kafla skýrslunnar fjallað um kerfisumbætur. Líkt og önnur umsóknarríki gerir Ísland þar grein fyrir eignarhlutum ríkisins í atvinnulífinu og umgjörð atvinnulífsins. Sérstök áhersla er á umfjöllun um aðgerðir til endurreisnar fjármálakerfinu og skuldaaðlögun heimila og fyrirtækja. Einnig er fjallað um þróun og aðgerðir á vinnumarkaði, landbúnaðar- og sjávarútvegsmál og umbætur í stjórnsýslu efnahagsmála.
Framkvæmdastjórn ESB mun senda aðildarríkjum sambandsins skýrsluna til umfjöllunar, en hún verður tekin fyrir í í efnahags- og fjármálanefnd Evrópusambandsins og síðar ráðherraráði sambandsins í vor.
Skýrslan er á ensku: Pre-Accession Economic Programme