Höfuðborgin blómstrar - þ.e.a.s. höfuðborg álfa lunda og gönguferða!
Það er mikill sóknarhugur í Borgarfirði eystra. Ferðaþjónustan Álfheimar er um þessar mundir að stækka hótelrýmið um 12 herbergi og hefur uppbygging starfseminnar og markaðsstarf gengið framar vonum. Samkvæmt öllum sólarmerkjum lítur því út fyrir að komandi ferðamannavertíð verði gjöful austur á Borgarfirði.
Arngrímur Viðar Ásgeirsson ákvað ásamt fjölskyldu sinni fyrir 5 árum að hefja uppbyggingu hótelherbergja í jaðri þorpsins í Bakkagerði en engin herbergi voru með baði á Borgarfirði. Gefum Arngrími orðið. „ Nú erum við að fara í 30 herbergi og þróunarvinna okkar snýst um það eins og víðast annars staðar að fjölga gestum á jaðartíma en hann er í okkar tilfelli maí mánuður til 20. júní og 20. ágúst til enda september. Þar erum við eins og yfir sumartímann að horfa á gönguferðir í okkar rómuðu náttúru en einnig að tengja gesti við það sem er að gerast til sjávar og sveita með dvöl hjá bændum og kynnast daglegu lífi í litlu sjávarþorpi. Þar sem staðsetning okkar er eins langt frá Keflavík og mögulegt er höfum við þurft að þefa uppi okkar eigin markhópa. Það hefur tekist ágætlega en mikil vinna er þó óunnin. Árið 2010 komu t.d. 120 danskir ferðamenn í 7 daga gönguferð á vegum Álfheima. Danirnir koma allir í gegnum sömu skrifstofuna og við nýtum okkur beint flug til Akureyrar sem virkar mjög vel og gerir ferðirnar samkeppnishæfari en ef við þyrftum að fljúga þeim inni í Keflavík. Þeir dvelja hjá okkur á hótelinu í 6 nætur og ganga 5-8 tíma dagsferðir á Víkunum okkar og einnig í Stórurð í nágrenni Dyrfjalla. Þessar ferðir hafa vakið mikla lukku og þá sérstaklega fjölbreytt náttúra og ferskur matur úr nánasta umhverfi okkar. Það er einnig gott að vita að í könnunum hafa ferðamenn gefið staðsetningu okkar mjög háa einkun þó langt sé til Keflavíkur. Mikil vinna liggur að baki uppbyggingu og markaðssetningu í ferðaþjónustu og hefur Ferðamálahópur Borgarfjarðar verið mjög öflugur klasi ferðaþjónustuaðila sem hefur gegnum árin verið leiðandi í uppbyggingu svæðisins sem gönguparadísar. Við höfum innan klasans hafið markaðsátak undir yfirskriftinni „Höfuðborg álfa, lunda og gönguferða“ (Capital of Elves, Puffins and Hiking) og sett í loftið endurnýjaðan vef um þjónustu og mannlíf á svæðinu www.borgarfjordureystri.is og mikið er framundan í þessu 140 manna samfélagi þar sem ekki er skortur á hugmyndum fyrir ferðamenn framtíðarinnar. Undirbúningur fyrir næstu „Bræðslu“ tónleika er hafin og þjónustuaðilar byrjaðir að hittast og spá í viðburði og stöðuna fyrir sumarið 2011. Það er ekki spurning að við erum tilbúin að taka á móti fleiri ferðamönnum bæði íslenskum og erlendum. Við viljum líka veita þeim persónulega þjónustu og leyfa þeim að njóta þess besta sem ísland býður uppá.“