Námskeið um nýjar úthlutunarreglur til félagasamtaka haldið 24. febrúar
Utanríkisráðuneytið og Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafa gefið út nýjar reglur um úthlutun styrkja til frjálsra félagasamtaka sem stunda þróunarsamvinnu og neyðar- og mannúðaraðstoð. Byggt er á eldri reglum, sem hafa verið endurskoðaðar ítarlega í góðu samstarfi við samstarfshóp íslenskra mannúðarsamtaka í alþjóðlegu hjálparstarfi og þróunarsamvinnu.
Gert er ráð fyrir að hlutur félagasamtaka í opinberum framlögum til þróunarsamvinnu muni vaxa hlutfallslega á komandi árum. Tilgangur verklagsreglnanna er að skýra fagleg skilyrði sem félagasamtök þurfa að uppfylla, til að geta vænst þess að fá styrki til einstakra verkefna. Fjallað er um ábyrgð, skyldur, stjórnun og eftirlit. Markmiðið er að tryggja eins og framast er unnt, að opinber fjárframlög sem félagasamtökum er falið að ráðstafa, nýtist eins og til er ætlast.
Ráðuneytið og ÞSSÍ munu efna til eins dags námskeiðs um verklagsreglurnar 24. febrúar næst komandi. Gert er ráð fyrir að þau samtök sem mynda ofangreindan samstarfshóp muni sækja námskeiðið ásamt öðrum samtökum, sem stunda alþjóðlega þróunarsamvinnu eða mannúðar- og hjálparstarf. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku til Sigrúnar Maríu Einarsdóttur á þróunarsamvinnusviði utanríkisráðuneytisins. Netfangið er: [email protected]