Íslensk samtímahönnun í Stokkhólmi
Sýningin Íslensk samtímahönnun - húsgögn, vöruhönnun og arkitektúr hefur vakið athygli á Hönnunarsýningunni Stockholm Furniture Fair og Stockholm Design Week sem stendur fram til 12. febrúar. Sýningin, sem er á vegum Hönnunarmiðstövar Íslands, kynnir brot af því besta á sviði hönnunar og arkitekúrs á Íslandi.
Sendiráð Íslands í viðkomandi höfuðborgum eru bakhjarlar sýningarinnar og hafa aðstoðað við uppsetningu og kynningu á hverjum stað; í Dansk Design Center í Kaupmannahöfn vorið 2010, á heimssýningunni í Sjanghæ í Kína í september og í Peking í nóvember og nú í Stokkhólmi. Sendiráð Íslands þar í borg efnir ásamt Hönnunarmiðstöð á morgun til kynningarmótttöku fyrir fagaðila og blaðamenn innan ramma dagskrárinar Design Boost í Hönnunarhúsi Stokkhólms.
Sýningin hefur að geyma verk um 20 hönnuða sem valdir eru með það í huga að eiga erindi ytra til frekari kynningar, sölu eða framleiðslu, en nú sem aldrei fyrr er brýnt að vera sýnileg á alþjóða vettvangi og styrkja erlend menningar- og viðskiptatengsl.
Stockholm Furniture Fair kaupstefna ætluð fagfólki; framleiðendum og hönnuðum, en leikmönnum gefst einnig tækifæri til þess að skoða það sem þar er til sýnis, því opið er fyrir almenning laugardaginn 12. febrúar nk. frá kl. 09:00-17:00.
Sýningin er samstarfsverkefni Hönnunarmiðstöðvar Íslands, utanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, Íslandsstofu og Hönnunarsjóðs Auroru.
Frekari upplýsingar um sýninguna og aðstandendur hennar er að finna hér: