Þeim á Dórukoti finnst rigningin góð ... a.m.k. fyrir viðskiptin!
Vettlingahlífar, pollasokkar, regnplöst á barnavagna, hnakkahlífar fyrir reiðhjól og kerrusvuntur eru á meðal framleiðsluvara frumkvöðlafyrirtækisins Dórukots á Ísafirði. Eins og með svo mörg frumkvöðlafyrirtæki þá byrjaði þetta smátt hjá þeim hjónum Dóru og Kristni sem búa á Ísafirði. Dóra hefur starfað sem dagmamma í 12 vetur og fyrir einhver jólin hannaði hún og saumaði húfur í jólagjöf handa krökkunum. Og þar með var boltinn farinn að rúlla!
Síðan hefur eitt leitt af öðru. Foreldrar höfðu samband og vildu kaupa húfu fyrir sitt barn og í kjölfarið komu fyrirspurnir um lúffur og ungbarnasokka í stíl og fjölda annarra vara. Þá tóku við miklar pælingar og tilraunir sem byggja á langri reynslu þeirra af því hvað dugar þegar börn og bleyta eru annars vegar! Í dag er vöruúrvalið fjölbreytt og í markaðssetningunni gegnir netið lykilhlutverki. www.Dorukot.is er hin eiginlega netverslun fyrirtækisins auk þess sem Facebook og Barnaland gegna veigamiklu hlutverki.
Dóra segir að þau hafi byggt þetta upp smátt og smátt og algerlega úr eigin vasa eins og þau vildu hafa þetta í upphafi. Nú er hins vegar komið að því að stíga næsta skref og Dóra ætlar að leggja daggæslustarfinu og einbeita sér að saumaskapnum, sem hingað til hefur verið unninn á kvöldin og um helgar og í öðrum frítímum sem sannanlega er orðið lítið af.
„Við byrjum smátt en ef við höldum áfram að vaxa eins og við höfum gert undanfarið ár verðum við orðin að stórveldi eftir 50 ár!“