Samstarfsvettvangur um atvinnumál hefur störf
Ríkisstjórnin hefur að tillögu forsætisráðherra ákveðið að setja á fót samstarfsvettvang um aðgerðir í atvinnu- og vinnumarkaðsmálum. Samstarfsvettvangurinn byggir á stefnumörkunarskjalinu Ísland 2020 – sókn fyrir atvinnulíf og samfélag og starfar í umboði nýskipaðrar ráðherranefndar í atvinnumálum. Ráðherranefndin og fulltrúar nýskipaðra vinnuhópa komu saman til fyrsta fundar í Þjóðmenningarhúsinu í dag.
Samstarfsvettvangurinn mun skiptast í tvo vinnuhópa; annarsvegar um mótun atvinnuáætlunar og sköpun starfa (“atvinnuhópur”) og hinsvegar um mótun aðgerðaráætlunar á sviði vinnumarkaðsúrræða, starfs- og endurmenntunar og endurhæfingar (“vinnumarkaðshópur”).
Hóparnir eru skipaðir fulltrúum tilnefndum af hlutaðeigandi ráðuneytum, öllum þingflokkum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Kennarasambandi Íslands, Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja og Bændasamtökum Íslands. Jafnframt verða kallaðir til setu í hópunum sérfræðingar sem búa yfir reynslu og þekkingu á sviði atvinnu- og vinnumarkaðsúrræða.
Gert er ráð fyrir að hóparnir skili ráðherranefndinni tillögum um aðgerðir og úrbætur á þeim sviðum sem þeim hefur verið gert að fjalla um. Hópunum er ætlað að útfæra lausnir og úrræði sem eru til þess fallnar að skapa fjölbreytt og varanleg störf og leita úrræða á sviði starfs- og endurmenntunar og leiða til að virkja atvinnuleitendur. Hópunum er ætlað að leggja fyrir ráðherranefnd um atvinnumál annars vegar tillögur um úrræði til skemmri tíma og hins vegar tillögur um stefnumótun til lengri tíma á framangreindum sviðum. Ráðherranefndin fjallar um og metur tillögur hópanna og ráðherrar leggja síðan einstök mál fyrir ríkisstjórn til formlegrar afgreiðslu eftir því sem tilefni er til og verk vinnast.
Sigurður Snævarr, ráðgjafi forsætisráðherra í efnahags- og atvinnumálum, mun stýra hópi um atvinnustefnu og sköpun starfa og Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Vinnumálastofnunar, mun stýra hópi um vinnumarkaðsúrræði.
"Ég er afar ánægð með þann góða anda sem ríkti á fundinum í dag. Efnahagslegar aðstæður eru nú að skapast fyrir sókn í atvinnulífinu og mér sýnist þessi breiði hópur staðráðinn í taka höndum saman, þvert á stjórnmálin og aðra hagsmuni og leggja sitt af mörkum í þá sameiginlegu sókn. Mikilvægasta verkefni okkar næstu misserin er að fjölga störfum og auka hagvöxt og um það verkefni voru menn að sameinast hér í dag." sagði forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir að fundi loknum.