Stærsti þekkingarvinnustaður á Íslandi á Framadögum 2011
Miðvikudaginn 9. febrúar síðastliðinn voru árlegir framadagar haldnir í Háskólabíói á vegum AIESEC, alþjóðlegra samtaka háskólanema.
Á framadögum gefst nemendum sem stunda háskólanám kostur á að kynna sér stofnanir og fyrirtæki, starfsemi þeirra og hlutverk. Að sama skapi gefst stofnunum tækifæri til að kynna starfsemi sína fyrir framtíðar starfsfólki.
Fjármálaráðuneytið hafði forgöngu um þátttöku ríkisins í ár og var í fyrirsvari fyrir ríkið sem vinnuveitanda. Þátttaka á framadögum er liður í því umbótastarfi sem hafið er til að skapa jákvæða ímynd í huga háskólanema á ríkinu sem framtíðarvinnuveitanda. Ríkið var kynnt sem „stærsti þekkingarvinnustaður á Íslandi“ sem býður upp á áhugaverðan og fjölbreyttan starfsvettvang fyrir háskólamenn.
Öllum stofnunum ríkisins var gefinn kostur á að taka þátt í deginum og kynna starfsemi sína, sér að kostnaðarlausu. Rúmlega 20 stofnanir tóku þátt, stórar sem smáar. Fyrir vikið var svæðið líflegt og fjölbreytt þar sem flest allir nemendur fundu eitthvað við sitt hæfi.
Áætlað er að um tvö þúsund háskólanemar hafi lagt leið sína á framadaga. Fjölmargir stöldruðu við hjá ríkinu, ræddu við fulltrúa stofnana og kynntu sér möguleika á samstarfi vegna lokaverkefna sem og atvinnutækifæri til framtíðar.
Það var góð stemning hjá stofnunum sem tóku þátt og nemendum. Það er mat ráðuneytisins og þátttökustofnana að vel hafi tekist til og dagurinn hafi í alla staði verið vel lukkaður.