Mælt fyrir frumvarpi til nýrra upplýsingalaga
Forsætisráðherra mælti í dag á Alþingi fyrir frumvarpi til upplýsingalaga sem er afrakstur af heildarendurskoðun gildandi laga. Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru þær að gildissvið upplýsingalaga verður víkkað með þeim hætti að þau taki til fleiri aðila en nú er. Þannig er gert ráð fyrir því að upplýsingalög taki til allrar starfsemi sem fram fer á vegum einkaréttarlegra lögaðila sem eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga að 75% hluta eða meira. Þá eru lagðar til breytingar á kröfum til framsetningar á beiðnum um aðgang að gögnum, með það að markmiði að almenningi verði gert auðveldara en nú er að óska upplýsinga.
„Ég tel að með því að flytja frumvarp þetta sýni ríkisstjórnin í verki að hún taki alvarlega þær kröfur sem uppi eru í samfélaginu um aukið aðgengi almennings að upplýsingum jafnt í fórum stjórnvalda og þeirra einkaréttarlegu aðila sem eru í eigu hins opinbera að 75% hluta eða meira,“ sagði forsætisráðherra m.a. í framsögu sinni.
Tengill í frumvarpið á vef Alþingis: www.althingi.is/altext/139/s/0502.html