Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2011 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra mælir fyrir þróunarsamvinnuáætlun á Alþingi

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra mælti í dag fyrir tillögu til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir tímabilið 2011 til 2014. Áætlunin fjallar um þátttöku Íslands í fjölþjóðlegri þróunaraðstoð, tvíhliða samvinnu við einstök ríki, neyðaraðstoð, friðargæslu- og hjálparstarfi. Í framsöguræðu sinni sagði utanríkisráðherra að markmið Íslands sé að leggja sitt af mörkum til alþjóðlegs samstarfs gegn fátækt og hungri og áætlunin staðfesti að alþjóðleg þróunarsamvinna sé ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu.

Í áætluninni er mörkuð sú stefna að Ísland muni á næstu tíu árum skipa sér í hóp þeirra ríkja sem leggja meira en sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Fylgt verði tímasettri áætlun um stigvaxandi hækkun framlaga úr 0,19% í 0,23%  af vergum þjóðartekjum á gildistíma áætlunarinnar. Verði hagvöxtur meiri en nú er spáð komi framlögin til endurskoðunar. Framlög til þróunarmála eru í dag tæplega 30% af heildarútgjöldum til utanríkismála.

Áherslusvið áætlunarinnar eru auðlindamál, mannauður og störf að friðaruppbyggingu. Innan áherslusviðanna verður kastljósinu beint að fiskimálum og orkumálum, menntun og heilbrigði, stjórnarfari og endurreisnarstörfum. Auk þessa eru jafnréttismál og umhverfismál skilgreind sem þverlæg málefni. Fimm lönd eru sérstaklega tilgreind sem áherslusvæði. Þau eru Malaví, Mósambík og Úganda, þar sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) sinnir verkefnum. Einnig er lögð áhersla á friðaruppbyggingu í Afganistan og stuðning við málefni Palestínumanna með framlögum til verkefna alþjóðastofnana og störfum íslenskra sérfræðinga á þeirra vegum.

Í marghliða starfi verður lögð áhersla á fjórar stofnanir: Alþjóðabankann, Barnahjálp SÞ (UNICEF), Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Háskóla SÞ. Neyðar- og mannúðaraðstoð verður jafnframt mikilvægur þáttur, með áherslu á mannúðaraðstoð frjálsra félagasamtaka, störf Matvælaáætlunar SÞ (WFP), Neyðarsjóðs SÞ (CERF) og samræmingarskrifstofu SÞ í mannúðarmálum (OCHA).

Þá er í áætluninni lögð sérstök áhersla á hlutverk frjálsra félagasamtaka. Samstarf stjórnvalda og félagasamtaka hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum og mun styrkjast enn frekar samkvæmt tillögum utanríkisráðherra.

Þingsályktunartillögu utanríkisráðherra má lesa í heild hér:

Umfjöllun Alþingis um tillöguna

Þróunarsamvinnusvið utanríkisráðuneytisins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta