Fjárfestingar fyrir 100 milljarða ... það er sem sagt hækkandi sól!
Það eru mikil og stór verkefni framundan í uppbyggingu virkjana og verksmiðja og nemur heildarfjárfestingin við þrjú verkefni sem eru að bresta á alls um 100 milljörðum króna.
Fyrst ber að nefna viðamikla uppfærslu á búnaði álversins í Straumsvík auk nýjunga í vöruframboði. Markmiðið er að framleiða enn verðmætari vöru og um leið að auka framleiðsluna um 20%. Alls nemur heildarfjárfesting álversins um 57 milljörðum.
Í gær var undirritaður samningur um kísilver í Helguvík sem framleiða mun um 50 þúsund tonn af hrákísli og 20 þúsund tonn af kísilryki árlega. Þetta er fjárfesting uppá 17 milljarða króna og er áætlað að um 300 manns muni vinna við byggingu verksmiðjunnar og um 100 eftir að hún er komin í fullan rekstur.
Lokafjármögnun á Búðarhálsvirkjun stendur nú yfir en hún mun skila 80 MW og er áætluð fjárfesting Landsvirkjunar vegna hennar um 26,5 milljarðar. Búðarhálsvirkjun er mikilvægur áfangi í aukningu á raforkuframleiðslu landsins.
Allt eru þetta framkvæmdir sem munu styrkja efnahagslífið og skapa fjölmörg störf.