Frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum nr. 15/1923 afgreitt í ríkisstjórn
Ríkisstjórnin afgreiddi í dag frumvarp iðnaðarráðherra um breytingu á vatnalögum.
Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði nauðsynlegar úrbætur á vatnalögum nr. 15/1923, þar með taldar grundvallarbreytinga á tilteknum köflum þeirra, í stað þess að fara í gerð nýrra heildstæðra vatnalaga. Megin skipan vatnalaganna frá 1923 hefur reynst afar vel og því margt sem styður það að áfram sé skynsamlegt að byggja á þeirri samfélagslegu sátt sem ríkt hefur um skipan eignarréttar samkvæmt lögunum.
Helstu efnisatriði frumvarpsins er eftirfarandi:
Ákvæði núgildandi vatnalaga frá 1923 um inntak vatnsréttinda helst óbreytt í öllum aðalatriðum, að frátöldum minniháttar lagfæringum, einföldun og sameiningu ákvæða. Réttur landeiganda til yfirborðsvatns er því áfram skilgreindur með jákvæðum hætti eins og verið hefur þannig að landareign fylgir réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni og stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt sem lögin heimila.
Veigamesta breytingin felst í nýju fyrirkomulagI stjórnsýslu vatnamála sem kemur að öllu leyti í stað núgildandi fyrirkomulags. Yfirstjórn mála mun skv. frumvarpinu skiptast með tilteknum hætti á milli tveggja ráðherra, iðnaðar- og umhverfisráðherra. Gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra fari með yfirstjórn umhverfis- og vatnsverndar og annist framkvæmd tiltekinna greina frumvarpsins en að öðru leyti lúti lögin yfirstjórn iðnaðarráðherra. Orkustofnun mun fara með stjórnsýslu og eftirlit nema í tilteknum atriðum þar sem lögin mæla fyrir um annað. Skylt verður að tilkynna Orkustofnun um allar framkvæmdir sem fyrirhugað er að ráðast í og tengjast vatni og vatnafari, þar á meðal framkvæmdir sem ekki eru sérstaklega leyfisskyldar samkvæmt þessum lögum eða öðrum. Orkustofnun er heimilt að setja skilyrði fyrir framkvæmdum og starfsemi sem talin eru nauðsynleg af tæknilegum ástæðum eða ef ætla má að framkvæmdir eða starfsemi geti spillt þeirri nýtingu sem fram fer í eða við vatn eða möguleikum á að nýta vatn síðar.
Sem dæmi um framkvæmdir sem samkvæmt frumvarpinu væru tilkynningarskyldar til Orkustofnunar má nefna malarnám í vatni, breyting á árfarvegi og mannvirki í vötnum. Orkustofnun hefur þannig það hlutverk að fylgjast með öllum framkvæmdum tengdum vötnum.
Ákvæði um hlutverks dómkvaddra matsmanna í vatnalögum eru felld brott og þess í stað byggt á almennum reglum. Þá eru ákvæði um eignarnám færð til nútímahorfs. Styrkir þetta skýrleika í allri framkvæmd sem og réttaröryggi.
Að auki er leitast við að einfalda og stytta lögin og á stöku stað eru felld brott ákvæði sem þykja sannarlega úrelt, s.s. sérákvæði um ístöku og um viðarfleytingar. Eru lögin því í heild sinni færð til nútímahorfs.